Orsakir útlitsbreytileika beitukónga

Þriðja og síðasta verkefnið sem kynnt er á vef Háskólans á Hólum, í tilefni af styrkloforðum úr Rannsóknasjóði, er Orsakir útlitsbreytileika beitukónga. Verkefnið er leitt af Erlu Björk Örnólfsdóttur, Háskólanum á Hólum.

Með Erlu í verkefnishópnum eru Kristen Marie Westfall við Vör - Sjávarrannsóknasetur við Breiðafjörð og þeir Snæbjörn Pálsson og Zophonías Oddur Jónsson frá Háskóla Íslands.

Þekking á hlut erfða- og umhverfisþátta við mótun svipfarsbreytileika lífvera er mikilvæg fyrir rannsóknir í þróunarfræði.

Kuðungar beitukónga í Breiðafirði eru þekktir fyrir mikinn breytileika í lit, lögun, þykkt og áferð, jafnt innan sem á milli svæða. Fyrirhuguð rannsókn tengir saman vistfræðilegar tilraunir við næstu-kynslóðar raðgreiningaraðferðir til að rannsaka orsakir þessa breytileika hjá beitukóngi.

Tilraunir við staðlaðar umhverfisaðstæður og athuganir á þroskun kuðunganna gefa upplýsingar um hlutfallslegt mikilvægi erfða og umhverfisþátta við ákvörðun útlitseiginleikanna.

Ítarleg kortlagning á breytileika innan Breiðafjarðar styrkir tengslagreininguna á arfgerðum og svipfarsgerðum. Stofngerð ásamt tengslagreiningunni verður framkvæmd bæði fyrir mörk í erfðamengi sem eru tengd og ótengd hæfni (þ.e. náttúrulegu vali), bæði innan Breiðafjarðar og fyrir útbreiðslu tegundarinnar í norður Atlantshafi.

Tengsl svipgerða og arfgerða, sem verður athuguð á umrituðu erfðamengi úr möttli valinna svipgerða, ásamt greiningu á breytileika innan stofnanna, nýtist til að finna gen að baki útlitsbreytileika kuðunganna. Greining á tjáningu þessara gena verður framkvæmd til að meta sveigjanleika í svipfarsákvörðun þeirra.

Þróunarleg aðgreining í lögun og lit kuðunganna verður rannsökuð með samanburði á breytileika og tjáningu þeirra gena sem ákvarða svipfarsbreytileikann í ólíkum stofnum í norður Atlantshafi sem sýna mismikla sögulega aðgreiningu.

Fleiri fréttir