Óttast að orkuskortur hamli atvinnuuppbyggingu
Byggðarráð Blönduósbæjar hefur sent inn umsögn til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þar er bent á að aðeins er lagt til að einn virkjunarkostur á vatnasviði Norðurlands vestra verði í orkunýtingarflokki og einn virkjunarkostur vindorku. Þannig horfi tillagan með öllu framhjá þeirri staðreynd að orkuskortur sé yfirvofandi víða um land og að virkjanir og dreifikerfi raforku anni ekki eftirspurn víða á landsbyggðinni. Virkjunarkostirnir sem um ræðir eru annars vegar veituleið Blönduvirkjunar og hins vegar Blöndulundur, þar af aðeins um 30 megavött í tiltölulega hagkvæmu vatnsafli. Í verndarflokk fara hins vegar fjórir virkjunarkostir á vatnasviði á Norðurlandi vestra.
Í umsögn byggðaráðs segir: „Að óbreyttu mun orkuskortur hamla bæði atvinnuuppbyggingu og orkuskiptum, s.s rafbílavæðingu. Þetta hefur raunar þegar átt sér stað á Norðurlandi vestra en áform um iðnaðaruppbyggingu á Hafursstöðum við Húnaflóa strandar á orkuöflun. Umræddur iðnaður myndi skapa á þriðja hundrað beinna starfa og svipaðan fjölda afleiddra starfa og skipta gríðarlegu máli fyrir byggðaþróun á svæðinu öllu enda Hafursstaðir af mörgum orsökum einkar heppilegur staðar, m.a. hvað varðar atvinnusókn og samgöngur af öllu Norðurlandi vestra. Um langt skeið hefur jafnframt verið unnið að annarri atvinnuuppbyggingu í bæði Skagafirði og Húnavatnssýslum og má þar t.d. nefna gagnaversiðnað. Öll eiga þessi verkefni það sammerkt að krefjast tryggrar raforkuframleiðslu og orkuafhendingar. Áréttað skal hér að Alþingi hefur áður samþykkt þingsályktun um átak til atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu, með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun, til að spyrna gegn byggðaröskun og fólksfækkun sem vart á sér hliðastæður hér á landi hin síðari ár.“
Byggðaráðið fer í umsögninni fram á að Alþingi breyti framkominni þingsályktunartillögu á þann veg að Skagafjarðarvirkjanir fari í biðflokk rammaáætlunar og verði þar með rannsakaðar til fulls, sem aftur verði grundvöllur ákvarðanatöku síðar meir um hvort þessi kostir verði hagnýttir til orkuöflunar eða þeir látnir njóta verndar.
Heimild: huni.is