Óvæntir gestir á Skagafirði

HMS Northumberland lá við akkeri austur af Hegranestá í hitamistri gærkvöldsins. Þórðarhöfði í baksýn. MYND: ÓAB
HMS Northumberland lá við akkeri austur af Hegranestá í hitamistri gærkvöldsins. Þórðarhöfði í baksýn. MYND: ÓAB

Þau eru ýmiskonar fleyin sem hafa rekið nefið/stefnið inn á Skagafjörðinn í ár. Í gær ráku Skagfirðingar upp stór augu þegar sást til herskips stíma inn fjörðinn fagra og lagðist það síðan við akkeri út af Lundey í blíðviðrinu í gær. Sannarlega ekki á hverjum degi, eða áratug, sem svona dallur dúkkar upp á þessum slóðum. Samkvæmt frétt á heimasíðu Skagafjarðarhafna nú í morgun er hér um að ræða HMS Northumberland. „Sennilega eru þeir í lundaskoðun,“ segir í fréttinni.

HMS Northumberland er freigáta breska sjóhersins af gerð 23 og áttunda skipið í flota hennar hátignar sem ber þetta nafn frá því árið 1679. Þetta Norhumberland var sjósett fyrir tæpum 30 árum, á sína heimahöfn í Devenport. Það er 130 metra langt, heldur styttra en skemmtiskúta rússneska milljarðamæringsins sem lónaði hér á Skagafirði í byrjun sumars. Það getur náð rúmlega 50 kílómetra hraða

Upphaflega átti hlutverk HMS (Her Majestys Ship) Northumberland að vera aðgerðir gegn kafbátum á Norður-Atlantshafi en „...hún hefur reynst fjölhæf og verið notuð til að leysa allskonar verkefni,“ segir á heimasíðu breska sjóhersins.

Það segir reyndar frá því á Wikipediu að fyrsta verkefni HMS Northumberland hafi verið við Falklandseyjar í nágrenni Argentínu. Á leiðinni þangað lenti skipið í ofsaveðri og var sent til að bjarga fiskimönnum í sjávarháska. Á leiðinni til þeirra á fullu stími í ofsasjó sigldi skipið á hval en náði þó að bjarga áhöfn togarans og kom henni í land á Tenerife. Þar var einnig gert við NHS Northumberland því það hafði orðið fyrir skemmdum í hamaganginum, ekki að talið er vegna árekstursins við hvalinn heldur hjó það ölduna svo rösklega að leki kom að skipinu. Engum sögum fer af afdrifum hvalsins.

Hvort sem breski sjóherinn er við lundaskoðun í Skagafirði eða bara að mæta á leik Tindastóls og KFS í hádeginu þá völdu þeir í það minnsta veðrið til heimsóknar því nú er blíðan.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir