Flugvél hjá Air Atlanta Icelandic þurfti að snúa við vegna óvenjulegs atviks

Jónas Kr. Gunnarsson flugstjóri hjá Air Atlanta. Mynd aðsend.
Jónas Kr. Gunnarsson flugstjóri hjá Air Atlanta. Mynd aðsend.

Þann 9. nóvember átti sér stað óvenjulegt atvik í háloftunum þegar íslensk fraktflugvél frá Air Atlanta, TF-AMM Boeing 747-400, var að fljúga frá John F. Kennedy flugvellinum í New York til Liege í Belgíu þegar hestur slapp úr stíu.

Um borð í vélinni voru tólf hestar og hver og einn hestur í sérstíu. Mikil ókyrrð var þegar vélin var í klifri eftir flugtakið og var hún einungis búin að ná 31.000 feta hæð þegar atvikið átti sér stað en þá hafði einn hesturinn orðið það taugatrekktur að hann stökk úr sinni stíu yfir í aðra þar sem annar hestur var. Við þetta slasaðist hesturinn talsvert mikið og þurfti að sprauta hann niður með deyfilyfjum til að róa niður og til að ná hinum hestinum út úr sinni stíu. Þegar flutningur er á dýrum hjá Air Atlanta eru alltaf fjórir sérþjálfaðir einstaklingar um borð til að sjá um hestana og velferð þeirra. Áhöfnin hafði strax samband við Kennedy flugvöll og óskað var eftir því að fá að snúa vélinni við og lenda aftur á Kennedy vellinum. Til að það væri gerlegt þurfti að losa um 30 tonn af eldsneyti því í svona fraktflugi er flugtaksþyngd vélarinnar talsvert hærri en lendingarþyngd og var því ekkert annað í stöðunni til að ná hámarks-lendingarþyngd til að geta lent vélinni. Leyfi fékkst til að losa eldsneytið sem tók um 20 mín. og er pumpað upp úr tönkunum á þessum vélum sem er gert yfir hafinu. Vélinni var svo lent með slasaða hestinn en því miður lést hann stuttu eftir það.

Einn af flugmönnunum í þessu flugi var Skagfirðingurinn frá Stóragerði og flugstjórinn Jónas Kr. Gunnarsson, sonur Sólveigar Jónasdóttur og Gunnars Kr. Þórðarsonar heitins. Jónas hefur starfað fyrir Air Atlanta í 19 ár og aðspurður hvort hann hafi lent áður í svona óvenjulegu atviki segist hann aldrei hafa lent í svona áður en að sjálfsögðu hafi hann þurft að hverfa frá lendingu á áfangastað vegna veðurs.

Youtube kennslumyndband var gert af fluginu og samskiptunum sem fóru á milli starfsmanna flugvélarinnar og Kennedy flugvallar sem hægt er að horfa á hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir