Pælingin - Áskorendapenninn Magnús Magnússon Húnaþingi vestra

Birta: Afi! Ég var pæla – er í lagi að pæla?
Afi: Pæling er aldrei einskisnýt! Pæling heldur heilanum virkilega í gangi. Það hollt og gott að pæla um hið jarðbundna og vanafasta. En það er líka gott hugsa út fyrir það. Hugsa um endanleikann og óendanleikann. Ekki hugsa aðeins um vanaganginn. Hugsun og heili í vanagangi gengur aðeins í hægagangi. 

Birta: Ég var að pæla hvort ég má pæla upphátt og hugsa upphátt?

Afi: Hugsaðu allt sem þú segir en ekki segja allt sem þú hugsar. Það er alltaf einhver sem hlustar og les.

Birta: Þarf ég að hugsa um þann sem hlustar og les.

Afi: Gættu tungu þinnar og hugsaðu um þann sem hlustar og les.

Birta: En þeir eru svo margir. Þarf ég að hugsa um þá alla?

Afi: Þú ert ein af þeim. Stundum ert það þú sem hlustar og lest. Stundum er talað til þín. Hvernig viltu að talað sé til þín? Talaðu við aðra eins þú vilt að aðrir tali til þín!

Birta: Þá er eins og orðin séu orðin vandamál!

Afi: Vandaðu málið svo orðin verði ekki að vandamáli! Skrifuð og töluð orð eru hættulegasta sprengiefnið í heiminum.

Birta: Stundum er ég pirruð út í pabba og mömmu og þá verður sprengja!

Afi: Sérhver kynslóð er í uppreisn gegn foreldrum sínum en vinur afa og ömmu.

Birta: En ég elska þau samt

Afi: Að elska er að lifa – að lifa er að elska í gegnum súrt og sætt.

Birta: En samt ekki eins og ég myndi elska kærastann

Afi: Nei, það er ást!

Birta: Hvað er ást?

Afi: Viltu stutta eða langa útgáfu af svari?

Birta: Stutta, takk – ég er að verða of sein inn á ,,snappið“

Afi: Ást = Tveir deilt með engu

Birta: Ég ætla að deila þessu ...

 

Ég skora Halldór Ólafsson á Skagaströnd að taka við áskorendapennanum.

 

Kær kveðja
Magnús Magnússon

Áður birst í 23. tbl. Feykis 2918

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir