Plokkað um allt land á sunnudaginn

Ómar Bragi og aðrir Rótarýmenn munu plokka og hvetja aðra til þess sama. MYND AÐSEND
Ómar Bragi og aðrir Rótarýmenn munu plokka og hvetja aðra til þess sama. MYND AÐSEND

Stóri plokkdagurinn á Íslandi verður sunnudaginn 28. apríl en þá ætla allir sem vettlingi geta valdið að fara út og plokka. Það geta allir tekið þátt í þessu ótrúlega skemmtilega og nauðsynlega verkefni því ruslið er víða. Rótarýhreyfingin á Íslandi hefur tekið þetta verkefni upp á sína arma og hvetur landsmenn alla; einstaklinga, fjölskyldur, vinahópa, vinnustaði og stofnanir, til að taka þátt.

Ómar Bragi Stefánsson, umdæmisstjóri Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi, leggur til að þátttakendur plokki í götunni sinni eða í sínu nánasta umhverfi. Einnig er hægt að plokka á opnum svæðum eða á svæðum þar sem þörfin er brýn. Gott er að hafa meðferðis plokktöng sem fæst víða og glæra plastpoka en samið hefur verið við móttökustöðvar t.d. í Reykjavík og sveitarfélög að taka við pokunum án greiðslu.

„Ég vil einnig minna á Umhverfisdag FISK í Skagafirði sem verður 4. maí. Þar ætla Rótarýfélagar að taka þátt og láta gott af sér leiða,“ segir Ómar Bragi.

Einar Bárðarson, rótarýfélagi og upphafsmaður Plokksins hér á landi segir: „Hreint land, fagurt land er gamalt og gott slagorð. Við höfum fengið það að láni í plokkið. Vertu með okkur í baráttunni við sorp í lausagangi. Virkjaðu nágranna og vini með okkur og höldum lóðinni, götunni, hverfinu, bænum, borginni, já og landinu öllu hreinu og fínu.“

Skagstrendingar munu taka þátt í deginum en ekki þann 28. apríl eins og væntanlega flestir aðrir. „Sveitarfélagið Skagaströnd ætlar að efla til plokkdags svipuðum og undanfarin ár, með grilluðum pulsum fyrir plokkarana. Dagurinn verður þó ekki 28. apríl eins og á landsvísu heldur í maí þegar snjórinn er farinn. Frekari tímasetning verður auglýst síðar,“ segir í tilkynningu á vef Skagastrandar.

Allir að plokka!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir