Prufudælt úr Nafarholunni á næstu dögum
Boruð var könnunarhola fyrir kalt vatn á Nafabrúnum á Sauðarkróki fyrir og um síðustu helgi en borun lauk á sunnudaginn. Holan verður prufudæld til að sjá hvort nægjanlegt vatn sé í henni. Staðsetning holunnar er beint fyrir ofan vatnslind í Lindargötu.
Að sögn Indriða Þórs Einarssonar, sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs Svf. Skagafjarðar, var tæplega 20 sm fóðurrör rekið niður á 42 m dýpi eða þar til komið var í fast berg.
Síðan var boruð um 14 sm víð hola niður á 52 m dýpi í föstu bergi.
„Holan var að lokum blásin með þrýstilofti í gegnum borstangir og ljóst er að eitthvert vatn er á ferðinni í neðri hluta hennar. Það kemur hins vegar ekki í ljós hvort nægjanlegt vatn sé í holunni til þess að virkja hana fyrr en að holan verður prufudæld,“ segir Indriði en stefnt er á að prufudæla hana á næstu dögum.
Ef neysluhæft vatn finnst í nýtanlegu magni í holunni er áætlað að tengja hana við stofnlögn vatnsveitu sem liggur frá Sauðárgili og að vatnstönkum á Gránumóum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.