Rabb-a-babb 148: Eysteinn

Nafn: Eysteinn Pétur Lárusson.
Árgangur: Hin magnaði árgangur 1978.
Fjölskylduhagir: Giftur Brynhildi Olgu Haraldsdóttur og eigum við strákana Rúnar Inga (14), Harald Björgvin (11) og Lárus Orra (7).  Þá má ekki gleyma Blika sem er páfagaukurinn á heimilinu.
Búseta: Kópavogur.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Ég er sonur Lárusar Jónssonar og Sigrúnar Zophoníasdóttir sem búsett eru á Blönduósi. Sjálfur er ég uppalinn á Blönduósi og bjó þar til 20 ára aldurs.
Starf / nám: Starfa í dag sem framkvæmdastjóri hjá Breiðablik. Er menntaður kennari og stunda í dag meistaranám á Bifröst í forystu og stjórnun samhliða vinnu.
Hvað er í deiglunni: Njóta sumarsins, utanlandsferð, fylgja strákunum mínum eftir á knattspyrnumótum hér heima og erlendis, skipuleggja Húnavökuhátíðina á Blönduósi og flutningar.

Hvernig nemandi varstu?  Ég held að ég hafi verið algjör fyrirmyndarnemandi þó ég segi sjálfur frá. Aldrei vesen á mér eftir því sem ég best veit J

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Græni ullarjakkinn sem ég klæddist sem var aðaltískan í þá daga. Fáir myndu láta sjá sig í þessum jökkum í dag.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Atvinnumaður í knattspyrnu. Gekk því miður ekki eftir, veit ekki alveg hvað klikkaði.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Fótboltinn minn.

Besti ilmurinn? Matarilmurinn úr eldhúsinu hennar Hildu.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Allt með Sálinni og Stebba Hilmars. Eina sem ég hlustaði á í þá daga.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Vængjalaus með Sálinni. Þeir sem þekkja mig vita af hverju.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? Horfi mjög lítið á sjónvarp. Missi samt helst aldrei af fyrstu 2-3 mínútum á öllum þáttum/myndum en eftir það er ég yfirleitt sofnaður.

Besta bíómyndin? Titanic. Fyrsta stefnumótið mitt og Hildu sem fram fór í Blönduósbíó. Yndislegur tími.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Hér áður var það Michael Jordan sem ég fylgdist vel með og var hann magnaður íþróttamaður. Í dag segi ég Gylfi Sigurðsson. Ótrúlegur íþróttamaður sem hefur náð langt með dugnaði og eljusemi.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Snooza á morgnana, klikkar aldrei, frúnni til mikillar gleði.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Geislavirkar pylsur – fljótlegt og þægilegt og klikkar aldrei. Pylsa vafin í eldhúsbréf, sett inn í örbylgjuofn í 27 sek og maturinn klár.

Hættulegasta helgarnammið? Bland í poka úr Hagkaup.

Hvernig er eggið best? Spælt báðum megin.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Að taka of mikið af verkefnum að mér og segja of sjaldan nei.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óheiðarleiki

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Lokaðu aldrei hurðum á eftir þér, þú veist aldrei hvenær þú gætir þurft að hafa þær opnar seinna meir.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Þær eru margar góðar sem koma í hugann úr sveitinni í Vatnsdalnum. Sérstaklega er minnistætt þegar ég og Jón Guðmann frændi minn fórum tveir ungir að árum að sækja mjólk fyrir ömmu og afa úr mjólkurtanknum og töldum það lítið mál. Í stað þess að skrúfa frá krananum losuðum við alla hespuna og réðum ekki neitt við neitt og tankurinn tæmdist í niðurfallið á örskotsstundu þeim gömlu til mikillar gleði eða hitt þó heldur.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Andrés Önd.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Væri fínt að vera Mourinho í nokkra daga og fá að prófa að stýra alvöru liði.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Les of sjaldan. En þegar ég les er það helst um jólin og þá útkallsbækurnar hans Óttars.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Er bissí, hringi eftir smá... (þetta smá geta verið nokkrir dagar/vikur).

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Mamma og pabbi. Annars væri ég ekki hér.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég færi aftur til 28. apríl árið 1990 en þá er mér sagt að Liverpool hafi síðast orðið enskur meistari þ.e. fyrir 27 árum síðan. Er ekki að kaupa það og væri því til í að sjá þennan merkisatburð með eigin augum.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Ætli að það væri ekki viðeigandi að það yrði „Heyri í þér eftir smá...“

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Flórída í gott frí með fjölskylduna.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Tjald, svefnpoka og síma

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Eignast sumarbústað, labba á Hvannadalshnjúk, fá tækifæri til að sinna afa hlutverkinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir