rabb-a-babb 22: Jón Hjartar

Nafn: Jón F. Hjartarson
.
Árgangur: 1947.
Fjölskylduhagir: Maki Elísabet Kemp.
Starf: Skólameistari.
Bifreið: Japanskur jepplingur.
Hestöfl: Dugar upp flestar brekkur.
Hvað er í deiglunni: Heitt járn.

Hvernig hefurðu það? 
Bærilegt miðað við aldur og fyrri störf, les ekki gleraugnalaust en fylgi klæðum, hef fótavist og get ráfað um að vild.
Hvernig nemandi varstu? 
Erfiður, skrifaði þýska stíla með gotneskri stafagerð og varð kennarinn minn að vísa deilum við mig til þýska sendiráðsins til að fá úr því skorið hverjar sagnaendingar skyldu vera í  tilvísunarsetning. Kennarinn var prófessor í þýsku við Háskólann og því erfitt að sætta sig við að þrasgjarn menntskælingur hefði rétt fyrir sér.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? 
Skuldbindingin.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
120 kg.
Hvað hræðistu mest? 
Hræðsluna sjálfa.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? 
Píanókonsert Rachmaninófs.
Hvaða lag ertu líklegastur til að syngja í Kareókí? 
Óðinn til gleðinnar.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? 
Þáttum um klassiska tónlist.
Besta bíómyndin? 
Being there með Peter Sellers.
Bruce Willis eða George Clooney / Angelina Jolie eða Gwyneth Paltrow? 
Eru þetta ekki nöfnin á folöldum Sveins Guðmundssonar frekar en sauðunum hans Gunnars Þórðarsonar bónda í Smiðsgerði?
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann? 
Harðfiskur og smér.
Hvað er í morgunmatinn? 
Góð áform um megrun sem breytast er líður á daginn.
Uppáhalds málsháttur? 
In re difficuli spem bonam habere debes.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? 
Ferdinand.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? 
Hreinir diskar að málsverði loknum.
Hver er uppáhalds bókin þín? 
Sturlunga eða Njála til skiptis.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... 
...upp og niður og í hring þegar vel viðrar.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? 
Fullkomnunaráráttan og skortur á lítillæti.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
Skorturinn á því sem er galli í fari mínu.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju? 
Manstu eftir Siddý? Vegna þess ég man ekki eftir henni.
Hvaða dómara hefurðu mestar mætur á? 
Þess er getið er í Bíflíunni.
Heim í Búðardal eða Diskó Friskó? 
Heim í Búðardal. Lifi Dalamenn.
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati? 
Einstein.
Ef þú ættir að dvelja aleinn á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? 
GPS-tæki, fullbúinn vélbát fullhlaðinn af nauðsynjum til langsiglinga og gervihnattasíma.
Hvað er best í heimi? 
Heima er bezt hvat.
Hvað er skagfirskast?
 Sveitarstjórn sem er við það að springa án málefnaágreinings án þess að vita það...(þ.e.a.s að þeir búi ekki við málefnaágreining).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir