Ráðstefna Listaháskóla Íslands í Textílsetrinu á Blönduósi

Ráðstefnugestir heimsóttu meðal annars sútunarverksmiðjuna Atlantic Leather á Sauðárkróki í gær og eru myndirnar þaðan.
Ráðstefnugestir heimsóttu meðal annars sútunarverksmiðjuna Atlantic Leather á Sauðárkróki í gær og eru myndirnar þaðan.

Katrín María Káradóttir, fagstjóri námsbrautar í fatahönnun við Listaháskóla Íslands og Steinunn Gunnsteinsdóttir sölufulltrúi Atlantic Leather á Sauðárkróki, standa í samstarfi við alþjóðlega samstarfsaðila, fyrir ráðstefnu og vinnusmiðju um nýtingu sjávarleðurs og nýsköpun í fatahönnun. Ráðstefnan er hluti af alþjóðlegu samstarfsverkefni sem nefnist FishSkin og hlaut stóran styrk frá Horizon 2020, rannsóknar- og nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins.

Tilgangur Horizon 2020 er að knýja fram hagvöxt og skapa störf innan Evrópu og er sjóðurinn styrktur af stjórnvöldum og leiðtogum Evrópu og meðlimum Evrópuþingsins. Verkefnið FishSkin snýst um að þróa aðferðir til að vinna roð af fiski á umhverfisvænan og ábyrgan hátt sem mótvægi við hefðbundna leður-framleiðslu.

Steinunn Gunnsteinsdóttir og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir markaðs og sölufulltrúar Atlantic Leather.

Samstarfsaðilar Listaháskólans og Atlantic Leather í verkefninu eru hönnuðir og rannsakendur frá Central Saint Martins, London College of Fashion, Þjóðminsjafninu í Danmörku, Menningarsögusafninu í Noregi, Shenkar listaháskólanum í Ísrael, Kyoto Seika háskólanum í Japan, Kornit Digital framleiðslufyrirtæki frá Ísrael, Oceanographic Research frá Ísrael og Ars Trinctoria rannsóknar- og greiningamiðstöð frá Ítalíu.

Hópurinn sem hér um ræðir kemur til með að tengja saman fatahönnuði, vísindamenn, tæknifræðinga og handverksfólk frá Norðurlöndunum og víðar að og að rannsaka möguleika á nýsköpun í fiskleðri úr roði sem sjálfbærari valkost en hefðbundin leður.

Gunnsteinn Björnsson, framkvæmdastjóri, ræðir við ráððstefnugesti.Ráðstefnan hófst sl. mánudag í húsi hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands en í framhaldinu fór af stað fjölþætt dagskrá þar sem Sjávarklasinn var heimsóttur áður en rennt var norður á Blönduós en þar fara fram fyrirlestrar, hringborðsumræður og fundir þar sem lögð verða frekari drög að samvinnu og þróun verkefnisins. Dvalið verður í Textílsetrinu á Blönduósi en þar mun Lotta Rahme, sænskur sérfræðingur í sútun sjávarleðurs vera með kvöldnámskeið fyrir þátttakendur í hefðbundnum norrænum aðferðum við sútun.

Atlantic Leather, sem er staðsett á Sauðarkróki og tekur einnig þátt í framkvæmd ráðstefnunnar, tók á móti hópnum í gær og sömuleiðis líftæknifyrirtækið IceProtein.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir