Ræsing í Skagafirði

Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Kaupfélag Skagfirðinga og Sveitarfélagið Skagafjörð leitar að góðum viðskiptahugmyndum sem auka fjölbreytni atvinnulífsins í Skagafirði.  Viðskiptahugmyndir sem fá framgöngu í verkefninu fá faglegan stuðning starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, aðstöðu til að vinna að verkefninu og fjármagns til að vinna viðskiptaáætlun þar sem þess þarf. Verkefnin sem komast áfram skila fullbúnum viðskiptaáætlunum í haust og besta viðskiptaáætlunin fær allt að einni milljón króna í verðlaun.

Einstaklingum, hópum og fyrirtækjum gefst kostur á að senda inn viðskiptahugmyndir í formi verkefnisumsókna til  Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands fyrir 12. júní nk. Lögð er áhersla  á að viðskiptahugmyndirnar;

  • skapi atvinnu í Skagafirði,
  • hvetji til rannsóknatengdrar nýsköpunar,
  • auki framboð á vinnu fyrir háskólamenntað fólk,
  • séu ekki í beinni samkeppni við aðra vöru eða þjónustu,
  • að teymið bak við hugmyndina sé hæft og tilbúið til að vinna að framkvæmd hennar
  • að hugmyndir séu tæknilega framkvæmanlegar
  • að markaður fyrir hugmyndina sé skilgreindur og raunhæfur

Haldin verða tvö námskeið fyrir áhugasama dagana 4. og 5 júní, þar unnið verður með hugmyndir og mótun verkefna.

Dómnefnd skipuð samstarfsaðilum verkefnisins velur allt að fjórar umsóknir til frekari þróunar. Aðstandendur hugmynda sem valdar verða áfram fá 12 vikur til að vinna viðskiptaáætlun og faglegan stuðning hjá Nýsköpunarmiðstöð Ísland við vinnuna, skrifstofuhúsnæði hjá Sveitarfélaginu Skagafirði og ef þurfa þykir, fjármagn til að standa straum af gerð viðskiptaáætlunarinnar.

Vonast er til þess að þetta verkefni skili  viðskiptahugmyndum sem eru tilbúnar til fjármögnunar eða reksturs strax í haust.

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir