Rakel Sif varð norskur meistari í U16 körfubolta

Sigurlið Kjelsås. Rakel Sif (númer 20) er fjórða frá hægri í efri röð og Ómar lengst til hægri í sömu röð. MYNDIR AÐSENDAR
Sigurlið Kjelsås. Rakel Sif (númer 20) er fjórða frá hægri í efri röð og Ómar lengst til hægri í sömu röð. MYNDIR AÐSENDAR

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni segir einhversstaðar. Nú á sunnudaginn varð lið Kjelsås norskur meistari í U16 körfubolta kvenna þegar liðið lagði Ulriken Eagles í æsispennandi úrslitaleik, 84-82. Liðin eru skipuð stúlkum sem er fæddar árið 2006 og ein þeirra sem hampaði bikarnum í leikslok var Rakel Sif Ómarsdóttir, dóttir Siglfirðingsins Báru Pálínu Oddsdóttur og körfuboltakappans og Króksarans Ómars Sigmarssonar sem er þjálfari liðsins.

Kjelsås er úthverfi norður af Osló en fjölskyldan hefur búið í Osló í fjölda ára. „Rakel er fædd 2007 og spilar með þessu 06 liði og 07 liðinu og líka með 05,“ segir Ómar þegar Feykir hefur samband. Rakel Sif gerði fimm stig í leiknum. „Hún er leikstjórnandi með mikla boltatækni og gott auga fyrir sendingum,“ segir pabbinn. 

Á heimasíðu norska körfuboltasambandsins segir að Kjelsås hafi unnið leikinn með góðu boltaflæði, samspili og sterkri einstaklingsframmistöðu og þrátt fyrir stórleik Önnu Hovig Wikström í liði Arnanna en hún gerði 49 stig í leiknum. „Anna er besti 06 leikmaður sem ég hef séð en það er gott að lið sigri einstakling. Við erum með sex leikmenn sem halda mjög háu stigi,“ sagði Jørn Nordal, í þjálfarateymi Kjelsås, eftir lokasigurinn í Benterudhallen í Hønefoss.

Ómar, sem er fæddur 1976, var einn leikstjórnenda Tindastóls árin 1992 til 2001 og gerði á sínum ferli 1759 stig fyrir Stólana. Flest stig í einum og sama leiknum gerði hann í útileik gegn Keflvíkingum 27. nóvember 1994 en þá skellti kappinn í 33 stig, þá 18 ára. Það dugði þó ekki til sigurs því heimamenn unnu leikinn 105-97. Þá voru kappar á borð við Torrey John, Palla Kolbeins, Arnar Kára Mar og Hinni Gunn aðrir máttarstólpar í liði Tindastóls.

Ómar er bróðir Guðrúnar Sigmars sem er mamma Arnars okkar Björnssonar sem skorar nú körfur í öllum regnbogans litum fyrir lið Tindastóls. Ómar missir ekki af leik hér heima, er með áskrift af Stöð2Sport, og fylgist spenntur með Stólunum. „Auðvitað sendi ég baráttukveðjur til strákanna og ég er 100% viss um að þeir klára þetta Valslið!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir