Reiknað með 50 manna hópi flóttafólks til Blönduóss og Hvammstanga

Sýrlensk börn á flótta. Mynd: barnaheill.is
Sýrlensk börn á flótta. Mynd: barnaheill.is

Sveitarstjórnir Blönduóss og Húnaþings vestra fengu í desember í hendur erindi frá velferðarráðuneytinu þar sem þess er farið á leit að sveitarfélögin taki á móti hópi sýrlenskra flóttamanna á þessu ári. Hópurinn sem hér um ræðir er fjölskyldufólk sem telur um 50 manns og er reiknað með að hann deilist jafnt á sveitarfélögin tvö. Auk þess er fyrirhugað að 25 einstaklingar fái samastað á suðvesturhorni landsins að því er segir í Fréttablaðinu um helgina en þar var rætt við Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóra á Blönduósi.

Valdimar segir sveitarstjórn hafa lýst yfir vilja til að skoða málið jákvætt en hafi þó sett dálítið stóran fyrirvara hvað varðar húsnæðismál þar sem þröngt sé um húsnæði á Blönduósi þó mikið sé í byggingu. Segist hann hafa óskað eftir nánari upplýsingum um málið í erindi til ráðuneytisins nú fyrir helgina, meðal annars um samsetningu hópsins og tímasetningar.

Nú þegar hefur hópur frá velferðarráðuneytinu og Rauða krossinum farið utan og valið þá sem hingað koma í vor. Valdimar segir hugmyndina vera þá að um 50 manna hópi fjölskyldufólks verði skipt jafnt milli Hvammstanga og Blönduóss sem svo gæti jafnvel verið í samstarfi við Skagaströnd en þar sé eitthvað um að húsnæði sé á lausu. „Ráðuneytið er að bjóða mjög víðtækan stuðning í eitt ár en eftir það ætti fólkið að vera komið í vinnu eða inn á einhvers konar bótakerfi,“ segir hann.

Blönduós hefur áður tekið á móti flóttafólki en fyrir um tuttugu árum kom þangað hópur fólks sem flúði stríðsátökin á Balkanskaga. Sá hópur staldraði ekki lengi við að sögn Valdimars, ekki vegna þess að fólkið hefði eitthvað út á staðinn að setja, heldur fóru sumir til síns heima að stríðinu loknu en aðrir fluttu til Reykjavíkur og hefur sumum vegnað þar mjög vel. Segir Valdimar að þó meirihluti bæjarbúa sé jákvæður gagnvart því að taka á móti nýjum hópi sitji það í sumum að mikil vinna var lögð í móttöku flóttafólksins á sínum tíma en það hafi svo bara verið horfið á braut einn daginn. „Sumir spyrja sig hvort þetta fólk sé komið til að vera eða bara til að bíða af sér einhvern storm,“ segir hann.
Valdimar segir að Blönduós sé vaxtarsvæði varðandi möguleika flóttafólksins til atvinnu. „Það hefur verið skortur á fólki í þjónustustörf, umönnunarstörf og tæknistörf í kring um gagnaverið,“ segir hann. „Það vantar líka hér á verkstæðin; vélvirkja og iðnaðarmenn alls konar.“ Hins vegar sé húsnæðisskorturinn vandamálið. Nú sé sveitarfélagið með fimm hæða íbúðablokk í byggingu en hún verði ekki tilbúin fyrr en eftir 12 til 14 mánuði. . „Við erum að ýta við byggingaverktökum sem hafa verið uppteknir við gagnaverið. Við vorum með sérstaka afslætti á lóðum og nú snúa þeir sér að því að byggja hús á þeim,“ sagði Valdimar O. Hermannsson í viðtali við Fréttablaðið á laugardaginn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir