REKO – hvað er nú það?

Þröstur Erlingsson í Birkihlíð í Skagafirði afhendir viðskiptavini á Blönduósi vöru sína.
Þröstur Erlingsson í Birkihlíð í Skagafirði afhendir viðskiptavini á Blönduósi vöru sína.

Undanfarin misseri hefur verið talsverð umræða í þjóðfélaginu um milliliðalaus viðskipti framleiðenda og neytenda og einnig kosti þess að neytendur geti nálgast sem mest af vöru sem framleidd er í héraði og þar með dregið úr flutningum með tilheyrandi kostnaði og mengun. Margir bændur selja vöru sína „beint frá býli“ og einnig hafa bændamarkaðir notið vinsælda.

REKO er viðskiptafyrirkomulag sem er tiltölulega nýtt hér á landi en á vafalaust eftir að ryðja sér til rúms á íslenskum markaði. Hugmyndafræðin undir nafninu REKO á rætur sínar að rekja til Finnlands og stendur skammstöfunin fyrir „vistvæna og heiðarlega viðskiptahætti“. Markmiðin með REKO eru m.a. að koma upp sölu- og dreifingarkerfi sem sparar tíma og peninga, að auka viðskipti með vörur úr héraði og efla nærsamfélagsneyslu og gera matarhandverki og heimavinnslu hærra undir höfði. REKO er nú að finna í sjö löndum; í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Íslandi, Ítalíu og Suður-Afríku. REKO hringirnir eru orðnir um 400 talsins og meðlimirnir yfir 800.000. Heildarveltan er talin vera í kringum 11 milljarðar króna.

Sex REKO hópar á Íslandi

Á Íslandi hafa verið stofnaðir sex REKO hópar en Matarauður Íslands réði Oddnýju Önnu Björnsdóttur sem verkefnastjóra til að halda utan um innleiðingu REKO hér á landi og stofnun hópa um allt land. Nú eru starfræktir sex slíkir hópar á landinu; REKO Reykjavík, REKO Vesturland, REKO sunnanverðir Vestfirðir, REKO Norðurland, REKO Austurland og REKO Suðurland. 

Seint á síðasta ári var hópurinn REKO Norðurland stofnaður og fóru fyrstu afhendingarnar fram rétt fyrir jólin á þremur stöðum; Blönduósi, Sauðárkróki og Akureyri. Næstu afhendingar voru svo á fimmtudag og föstudag í síðustu viku á sömu stöðum og ákveðinn hefur verið tími fyrir þriðju afhendingarnar sem verða á Blönduósi og Sauðárkróki þann 7. mars og á Akureyri 8. mars. Stofnaðir hafa verið viðburðir á Facebook fyrir þá og geta áhugasamir sótt um u'inngöngu í hópinn REKO Norðurland. 

Hægt er að afla sér nánari upplýsinga um REKO og sölufyrirkomulagið á slóðunum  https://mataraudur.is/reko-a-islandi/ og https://mataraudur.is/reko-algengar-spurningar-og-svor-fyrir-framleidendur/

Sagt var frá REKO og rætt við Sigrúnu Indriðadóttur, einn af stjórnendum REKO Norðurland, í nýjasta Feyki sem kom út sl. miðvikudag.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á Blönduósi og Sauðárkróki við afhendingu þann 7. febrúar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir