Reynir var valinn efnilegasti leikmaður Þórs í vetur

Reynir Bjarkan Barðdal Róbertsson, Jason Gigliotti, Baldur Örn Jóhannesson og Óskar Þór Þorsteinsson þjálfari. MYND AF HEIMASÍÐU ÞÓRS
Reynir Bjarkan Barðdal Róbertsson, Jason Gigliotti, Baldur Örn Jóhannesson og Óskar Þór Þorsteinsson þjálfari. MYND AF HEIMASÍÐU ÞÓRS

Um miðjan maí hélt körfuknattleiksdeild Þórs á Akureyri sitt lokahóf en Þórsarar voru með lið í Subway-deild kvenna og 1. deild karla. Í kvennaflokki voru tvær stúlkur sem stigu eitt sinn dansinn með liði Tindastóls, þær Maddie Sutton og Eva Wium Elíasdóttir, verðlaunaðar og þá var Króksarinn og Íslandsmeistarinn Reynir Róbertsson valinn efnilegasti leikmaður Þórs á síðasta tímabili.

Reynir var í leikmannahópi Tindastóls árið áður og nældi sér í gullmedalíu þegar Stólarnir urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn. Hann ákvað hins vegar að söðla um síðasta sumar og skipti yfir í Þór þar sem hann hefur fengið mikinn spilatíma. Feykir hafði samband við Reyni, sem er fæddur árið 2004 og sonur Róberts Óttarssonar og Selmu Barðdal, og spurði fyrst hvað hann væri að gera annað á Akureyri en spila körfubolta. „Ég er að vinna sem stuðningsfulltrúi til tvö á daginn og svo er það í rauninni bara æfingar og leikir eftir það.“

Hvernig var veturinn með liði Þórs? „Veturinn var mjög góður, mér leið mjög vel á Akureyri og með Þór, það var tekið mjög vel á móti mér og ég var ekki ekki lengi að koma mér fyrir.“

Varstu ánægður með eigin spilamennsku? „Ég var nokkuð sáttur, átti marga leiki þar sem ég skoraði yfir 30 stig og við unnum marga mjög skemmtilega leiki sem okkur var svo sannarlega ekki spáð sigri í!“

Hvað vantaði upp á til að koma Akureyringum aftur í efstu deild? „Það var ekki mikið, en þetta var uppbyggingartímabil. Okkur var spáð 11. sæti en við enduðum í fimmta og komumst í 4 liða úrslit þar sem við mættum ÍR sem voru með fimm útlendinga,“ segir Reynir en hann bætir við að Þórsarar hafi verið með tvo erlenda leikmenn; einn Kana og einn Bossmann.

Var góð stemning fyrir körfunni í úrslitakeppninni? „Mjög góð, lið voru ekki spennt að koma á Akureyri í höllina. Svo vorum við með frábært stuðningsfólk sem kom að hvetja og svo hélt stjórnin vel um hlutina,“ segir Reynir sem hefur enn ekki ákveðið fyrir hvern hann ætlar að negla niður þristum á næsta tímabili – klárar fyrst landsliðsverkefni sumarsins og sér svo til.

Feykir óskar kappanum til hamingju með nafnbótina efnilegasti leikmaðurinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir