Riðusérfræðingarnir heillaðir af norðlenskum bændum

Gísli biskub og Þuríður tóku á móti hópnum á Hólum. Annar og þriðji t.v. eru Vincent og Ben, Romolo á milli Gísla og Þuríðar. Mynd: Guðbergur Davíðsson.
Gísli biskub og Þuríður tóku á móti hópnum á Hólum. Annar og þriðji t.v. eru Vincent og Ben, Romolo á milli Gísla og Þuríðar. Mynd: Guðbergur Davíðsson.

Hápunktur príonarfgerða- og næmisrannsókna og upphaf frekari rannsókna

Eins og Feykir greindi frá nýlega, mætti stór hópur erlendra vísindamanna á upphafssvæði riðuveiki vikuna 19. til 23. júní og fór í vettvangsferð í Svarfaðardalinn og Skagafjörðinn. Á lokafundinum voru allir sammála: Þeir voru heillaðir af brennandi áhuga sauðfjárbænda á efninu, af umfangsmikilli þekkingu þeirra um málin, af vilja þeirra að leysa málin á vísindalegan hátt. Þeim kom líka hinn sterki félagsandi bænda á óvart, náin tengsl þeirra við hjörðina sína, ástríðan og - í orðsins fyllstu merkingu - ódrepandi bjartsýni og seigla „riðubænda“ til að halda áfram þrátt fyrir að hafa misst kindurnar sínar í niðurskurði.

Vísindamennirnir komu frá Frakklandi, Englandi, Spáni, Ítalíu og Þýskalandi – íslenska teymið í rannsókninni samanstendur af þeim Eyþóri Einarssyni frá RML, Stefaníu Þorgeirsdóttur og Vilhjálmi Svanssyni á Keldum og Karólínu Elísabetardóttur í Hvammshlíð sem sló á þráðinn til príonsérfræðingsins dr. Christine Fast, fyrir tveimur árum. Þetta símtal reyndist upphafið að stóru rannsóknarverkefni um riðu á Íslandi og möguleika til að yfirfæra nýjar lausnir yfir á önnur sauðfjárkyn í öðrum löndum.

Feykir fékk Karólínu til að segja frá því helsta sem á daga vísindamannanna, og skipuleggjendur, dreif í heimsókn þeirra til Íslands. Tók hún vel í þá bón og er eftirfarandi:

Jóhannes á Brúnastöðum í essinu sínu: Ekki bara gestirnir heldur einnig geiturnar hlusta vel.Vettvangsferðin var bæði hápunktur príonarfgerða- og næmisrannsókna og upphafspunktur frekari rannsókna, meðal annars um riðustofnagreiningar og umhverfissmit. Evrópuverkefnið heitir „Classical Scrapie in Iceland – ScIce: a model for prion diseases worldwide“ og er styrkt af Evrópusambandinu með upphæð sem samsvarar 190 milljónum króna. Íslenska teymið fær hins vegar ekki beinan styrk; rannsóknarvinnan til þessa, aðallega á sviði príonarfgerða og næmi þeirra, hefur til þessa verið fjármögnuð úr Þróunarsjóði sauðfjárræktar. En Ísland mun að sjálfsögðu njóta góðs af niðurstöðunum rannsóknanna.

Langflestir úr vísindateyminu hafa unnið á sviði príonsjúkdóma í tuttugu eða jafnvel yfir þrjátíu ár – á þessu tímabili fannst á heimsvísu lausnin til að sigrast á riðunni: ræktun verndandi arfgerðir, í sauðfé heitir þessi arfgerð ARR (breytileiki R171). Rannsóknirnar á Íslandi leiddu núna í ljós að fleiri arfgerðir en ARR hafa mótstöðu gegn riðu. Að mati bæði vísindamannanna og íslenskra bænda er það ómetanlegur kostur – þetta gerir bændum kleift að rækta upp þolin stofn á mjög stuttum tíma án þess að missa þann einstaka fjölbreytileika úr íslenska sauðfjárstofninum sem hann býr yfir í dag og án þess að fara í mikla skyldleikarækt.

Svarfaðardalur, Stóru-Akrar og Álftagerði

Til að átta sig á íslenska raunveruleikanum, heimsótti vísindamannahópurinn tvö svæði þar sem riðuveiki hefur verið landlæg í mjög langan tíma: fyrst Svarfaðardalinn, þar sem riða er talin koma upp fyrst 1912, og svo Skagafjörðinn, þar sem enski hrúturinn kom til landsins 1878 sem bar sjúkdóminn fyrst með sér. Tvö smitsýni sem notuð eru í næmis- og í stofngreiningarrannsóknunum eru frá Urðum í Svarfaðardal; hópurinn kom þess vegna við þar. Sauðfjárbúskapnum var hætt þar á bæ eftir seinni niðurskurð af þremur 2017.

Á leiðinni vestur stoppaði hópurinn á Brúnastöðum þar sem Stefanía Hjördís og Jóhannes fræddu hann um sérstöðu íslensku geitarinnar og buðu upp á ýmis góðgæti úr eigin framleiðsla sem vöktu mikla lukku hjá gestunum – það er bæði ostavinnsla og kjötvinnsla heima á bænum. Sérstaklega kom milda bragðið geitamjólkurinnar gestunum skemmtilega á óvart. Aldrei hefur fundist riða í íslenskri geit og geitaarfgerðir eru einnig hluti af rannsókninni sem stendur yfir.

"Lifandi dæmi fyrir jáakvæða hugsun." - Gunnar á Stóru-Ökrum breytti fjárhúsinu í gróðurhús eftir niðurskurð.Bækistöð vísindamannanna voru Hólar – tákn þekkingar og fræðslu í margar aldir og biskupssetur. Gísli, núverandi biskup, var sjálfur sauðfjárbóndi áður en hann tók við embættinu og þau Þuríður lögðu meira að segja til kind með N138/AHQ í næmisprófin. Sérfræðingarnir voru því sérstaklega ánægðir með það að Gísli og Þuríður tóku á móti þeim þegar þeir mættu á mánudagskvöld og borðuðu með þeim hægeldaðan lambabóg, brúnaðar kartöflur og alls konar íslenskt grænmeti.

Í Skagafirði tók Gunnar á Stóru-Ökrum á móti sérfræðingunum. Búið hans hafði verið upphaf „riðubylgjunnar“ haustið 2020 sem kom mikilli umræðu í gang og gerði í rauninni fyrstu nýstárlegu rannsóknirnar mögulegar. Afi hans útrýmdi riðu á bænum með markvissri ásetningu á fimmta áratug – en þessi þolni stofn hvarf með niðurskurði út af mæðiveiki. Talið er líklegt að gamla smitefnið hafi náð sér aftur á strik, þ.e. á yfirborð, og verður rannsakað núna betur. Þar sem Stóru-Akrar eru líka mjólkurbú var Gunnar ekki búfjárlaus eftir niðurskurðinn og gestirnir dáðust að litafjölbreytileikanum íslenskra mjólkurkúa í fjósi hans. Svo breytti hann fjárhúsunum í gróðurhús, sem vakti mikla athygli, ekki síst þar sem hér voru meira að segja ávaxtatré að finna, sem eru auðvitað algeng í heimalöndum vísindamannanna en afar sjaldgæf á Íslandi.

Álftagerði var heimsótt næst, að öllum líkindum einnig dæmi fyrir smit sem kom úr umhverfinu, þ.e. úr jarðvegi kálakurs. Kindur með AHQ, frá Ytra-Vallholti, mynda nýja fjárstofninn – arfgerð sem hjónin Björn og Harpa Hrund hafa ræktað þar markvisst í mörg ár og sem hefur reynst afar vel til þessa. Nýjustu niðurstöðurnar úr næmisprófunum Vincents í Frakklandi staðfesta þessa reynslu, sem þótti mjög áhugavert hjá vísindamönnunum. Gísli og Ingibjörg í Álftagerði höfðu barist fyrir þeirri undanþágu í nokkur ár að mega taka fé með AHQ úr næsta nágrenni í staðinn fyrir kindur með næmar arfgerðir úr líflambasölusvæðum (sjá Feyki 33. tbl. 2020). Hitt sem gestirnir töluðu um löngu á eftir var kaffihlaðborðið að hætti Ingibjargar sem var bæði afar fjölbreytt og ljúffengt og kom þeim alveg á óvart.

Troðfullt hús í Miðgarði: Bændafundir

Fyrri fræðslufundurinn; litliu salurinn í Miðgarði troðfullur af "sérstaklega áhugasömum."Á miðvikudag – sumarsólstöðum – var boðið upp á tvo fundi fyrir bændur til að fræðast um ýmis atriði í kringum riðuveiki, til að heyra eitthvað um niðurstaður rannsóknanna og ekki síst til að spyrja spurninga og taka umræðu. Kristín Halla sá um aðstöðu í Miðgarði, ekki síst um matarmikla kjötsúpu, sem var mjög vinsæl hjá sérfræðingunum, og kaffiveitingar. Þrátt fyrir að fyrri fundurinn væri ætlaður „sérstaklega áhugasömum“, var litli salurinn troðfullur með um 50 gestum og umræður líflegar. Fyrir utan vísindamennina voru mætt Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir, Sigurbjörg Bergsdóttir sérgreinadýralæknir í sauðfjársjúkdómum, Daníel Haraldsson og Ólafur Jónsson norðlensku héraðsdýralæknarnir og Þórður Pálsson dýraeftirlitsmaður frá MAST. Þau funduðu með erlendu sérfræðingunum rétt áður en hinir fundir byrjuðu.

Stefanía Þorgeirsdóttir veitti á fyrri fundinum umfangsmikla innsýn í riðugreiningar og -rannsóknir á Keldum fyrr og nú. Romolo Nonno miðlaði grunnatriðum um eðli og greiningaraðferðir riðustofna og sagði frá rannsóknunum þeirra upp úr 2007 sem óvænt leiddu til þess að T137 uppgötvaðist sem verndandi í sauðfé á Ítalíu.

Harkalegasta sótthreinsun kemur ekki í veg fyrir endursmit

Afslöppun á Hofsósi: Christine Fast (t.h.), Þýskalandi, stofnaði alþjóðlega rannsóknarhópinn 2021 - hér með Charlotte Thomas, Skotlandi.Þá byrjaði „stóri“ fundurinn, um 150 manns mættu í salinn og margir að auki á Zoom. Eftir inngangsorð frá Sigfúsi Inga Sigfússyni sveitarstjóra og Sigurborgu Daðadóttur kom Ben Maddison með sláandi niðurstöður úr riðutilraunabúi í Englandi: Þrátt fyrir háþrýstihreinsun, klórhreinsun, endurgalvaníseringu og málningu í allt að 1,50 m hæð smituðust, eftir fáa mánuði, allar tilraunarkindur – sérstaklega næmar með VRQ/VRQ. Ástæðan er ryk sem finnst einnig þar sem kindur ná ekki til. Þetta ryk er að dreifast um húsið, endursmitar það og viku eftir sótthreinsun er hægt að mæla smit á nýsótthreinsuðu yfirborði.

Ben undirstrikaði að hér væri um sérstakar aðstæður að ræða (sem útskýrir af hverju ekki allar kindur á fyrrverandi riðubúum smitast strax undir venjulegum kringumstæðum). En að hans mati er augljóst að niðurskurður og sótthreinsun getur ekki komið í veg fyrir það að riða komi upp aftur og að eingöngu ónæmar arfgerðir tryggi að ekkert endursmit eigi sér stað í framtíðinni.

Vincent og næmisprófin – brautryðjandi niðurstöður

Stjarna kvöldsins var þess vegna Vincent Béringue sem kynnti glænýjar niðurstöður úr næmisprófunum mismunandi arfgerða sem hann og Angélique Igel starfssystir hans hafa unnið við síðan í vetur:

 • 17 mismunandi samsetningar allra 7 breytileika sem koma fyrir á Íslandi
 • er verið að prófa með samtals 10 ólíkum smitsýnum frá eftirfylgjandi 7 bæjum: Urðum, Stóru-Ökrum, Vallanesi, Álftagerði, Stóru-Gröf ytri, Vatnshóli og Neðra-Vatnshorni

Niðurstöður úr þessum prófum eru allar í sömu átt, þess vegna telur Vincent mjög ólíklegt að eitthvað allt annað kemur út í prófunum sem eftir eru – síðustu prófunum verður lokið seint í haust. Það helsta:

 • Sum smitsýni eru greinilega „sérhæfð“ í ARQ og önnur í VRQ.
 • ARQ/ARQ er yfir höfuð eins næmt og VRQ/VRQ.
 • Mjög áhugavert: Allir breytileikar T137, N138, C151 og AHQ (= H154) bjóða upp á talsverða vernd (miðað við næmu arfgerðirnar ARQ/ARQ og VRQ/VRQ) sem virðist að mati Vincents sambærileg við ARR.

Fjórir einstaklingar - fjórar arfgerðir og allar með mótstöðu gegn riðu: Drottning frá Hvammshlíð (N138/AHQ) með lömbum sínum (T137/AHQ og T137N138); t.v., Fjólusonur (T137/ARQ).Þessar niðurstöður eru til þessa í samræmi við gögn um arfgerðir riðujákvæðra kinda hér á landi. Til dæmis á Vatnshóli og Stóru-Ökrum, þar sem allar kindur voru raðgreindar eftir niðurskurð, voru allar jákvæðar kindur með ARQ/ARQ þrátt fyrir talsverðan fjölda N138, C151 og AHQ í báðum hjörðum, sérstaklega á Vatnshóli.

Eftirfarandi rannsóknir eru í gangi til að fá staðfestingu:

 • arfgerðagreining 15 riðuhjarða í viðbót (1998 til 2023) og samanburður arfgerða jákvæðra og neikvæðra gripi úr sömu hjörð
 • prófa hin 7 smitsýni í PMCA þrisvar

Drangey og skagfirskur söngur í lokin

Bongóblíða á leiðinni í Drangey! Romolo fremstur, Eyþór til vinstri.Eftir þennan langa og stranga dag fóru flestir úr hópnum í Drangeyjarferð á fimmtudeginum, hinir tóku göngutúr í Garðsfjörunni á meðan – eftir þoku og rigningu var þetta eini bjarti dagurinn, útsýnið yfir hafið og fjallasali Skagafjarðar stórglæsilegt og gestirnir alsælir. Eftir það var slegið upp grillveislu á Steinsstöðum sem vakti einnig mikla lukku – ekki síst þar sem Gísli í Álftagerði, Ólafur Atli á Grófargili, Ingimar á Ytra-Skörðugili og Aron í Víðidal mættu og tóku, ásamt Eyþóri, nokkur lög, öll margrödduð. Þetta vakti mikla lukku og aðdáun, að mati vísindamannanna enn eitt dæmi hvað íslenskir sauðfjárbændur eru fjölhæfir.

Heimsóknin í Drangey var krefjandi - líkamlega og ekki síst andlega (ekkert fyrir lofthrædda). En hópurinn var alsæll.Síðast en ekki síst má nefna að það hafði verið lagt rík áhersla á íslenskan mat, meðal annars lambakjöt, ærkjöt, folaldakjöt, ýmis konar grænmeti, osta og aðrar mjólkurvörur, helst úr héraði. Þrátt fyrir að vísindamennirnir kæmu úr gjörólíkum löndum – Romolo, til dæmis, fæddist á lítilli eyju í Miðfjarðarhafi en Fiona í Skotlandi – voru þeir undantekningarlaust hrifnir af öllu sem borið var á borð. Í matartímanum var líka mikið spjallað um sjálfbæra framleiðslu og dýravelferð; að þeirra mati er sér í lagi íslenskur sauðfjárbúskapur ein sjálfbærasta leið til kjötframleiðslu í heimi.

Tæknileg vandamál á fundunum í Varmahlíð, 21. júní, ollu miklum truflunum í útsendingu á Zoom. Þess vegna voru fyrirlestrarnir talaðir inn aftur (eingöngu á íslensku þá) og eru aðgengilegir hér á slóðinni: www.tinyurl.com/upptaka-midgardur

Þessar arfgerðir/samsetningar hafa verið prófaðar í PMCA-prófum:

T137/ARQ
T137/AHQ
T137/ARR
T137/T137

N138/ARQ
N138/AHQ
N138/N138
C151/ARQ

C151/C151
C151/AHQ
AHQ/ARQ
AHQ/AHQ
AHQ/ARR

auk þess til samanburðar – næmar arfgerðir:

VRQ/VRQ
ARQ/ARQ

auk þess til samanburðar – ónæmar arfgerðir:

ARR/ARQ
ARR/ARR

Til landsins komu (í stafrofsröð):

 • Angélique Igel, Frakklandi
 • Ben Maddison, Bretlandi
 • Charlotte Thomas, Bretlandi
 • Christine Fast, Þýskalandi
 • Fiona Houston, Bretlandi
 • John Spiropoulos, Bretlandi
 • Juan Carlos Espinosa, Spáni
 • Jörn Gethmann, Þýskalandi
 • Katayoun Moazami, Frakklandi
 • Kevin Gough, Bretlandi
 • Laura Pirisinu, Ítalíu
 • Romolo Nonno, Ítalíu
 • Vincent Béringue, Frakklandi

Gesine Lühken, Þýskalandi og Torsten Seuberlich, Sviss, gátu ekki mætt að þessu sinni.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Myndir:

Hópmynd: Guðbergur Davíðsson, Ljósop

Drottning & lömb: Karólína í Hvammshlíð

Allar aðrar myndir: Stefanía Þorgeirsdóttir, Keldum

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir