Rjúpurnar hurfu um nóttina

Guðbrandur Ægir búinn að finna rjúpurnar sem hurfu sporlaust úr trénu. Aðsendar myndir.
Guðbrandur Ægir búinn að finna rjúpurnar sem hurfu sporlaust úr trénu. Aðsendar myndir.

Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson á Sauðárkróki varð fyrir miklum vonbrigðum er hann leit út sl. laugardag og uppgötvaði að rjúpurnar tvær sem hann veiddi daginn áður voru horfnar en  þær héngu á grein í einu trénu í garðinum hjá honum. Þar sem engin ummerki voru eftir rándýr taldi hann að einhver bíræfinn þjófur hefði verið að verki sem vantaði í jólamatinn eða þá einhver paur á leiðinni heim af barnum um nóttina og fundist hann vera fyndinn.

 
Undir kofanum voru þær tvær

Mynd 2: Aflinn fundinn undir kofanum.

Deildi Ægir reynslu sinni á Fésbók og urðu margir reiðir fyrir hans hönd og gáttaðir á hvernig komið væri fyrir mannkyninu að leggjast svo lágt að gera svona nokkuð. Það liðu þó ekki margir klukkutímar er aflinn fannst, illa farinn undir húskofa í garðinum og étinn að hálfu. Málið er þá núna þannig statt að köttur liggur helst undir grun. Eftir áreiðanlegum heimildum gengur hann enn laus.

Mynd 3: Á þessari grein í 2 m hæð héngu rjúpurnar.

Á þessari grein í 2 m hæð héngu rjúpurnar.

Ægir segir málið allt hið undarlegasta enda hafi hann hengt rjúpur á greinina í mörg ár með góðum árangri. Hann lætur rjúpur hanga þar til tölunni 40 er náð en hún er fengin með meðalhitastigi dagsins og fjölda daga. Sem dæmi rjúpa sem hangir í fimm gráðu hita ætti að vera tilbúin til frystingar eftir átta daga. „Það virðist vera nokkuð mikið af fugli þannig að maður ætti að ná í jólamatinn, þrátt fyrir skakkaföllin,“ segir hann og getur ekki annað en brosað yfir málalokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir