Rúnar Már kominn til CFR Cluj í Rúmeníu

Rúnar Már kynntur á heimasíðu CFR Cluj. SKJÁSKOT
Rúnar Már kynntur á heimasíðu CFR Cluj. SKJÁSKOT

Íslenski landsliðsmaðurinn og Skagfirðingurinn Rúnar Már Sigurjónsson hefur komist að samkomulagi við Astana um að rfita samningi sínum við félagið og hefur nú fært sig um set því í framhaldinu skrifaði hann undir tveggja ára samning við rúmenska stórliðið CFR Cluj sem hefur af og til leitt gæðinga sína fram á sparkvelli Meistaradeildarinnar í knattspyrnu.

Rúnar Már er þrítugur miðjumaður sem hefur leikið með liði Astana frá Kasakstan síðustu tvö árin og með þeim rættist gamall draumur Rúnars um að spila á Old Trafford . Rúnar skoraði 13 mörk fyrir Astana og lagði upp önnur átta í 40 leikjum fyrir félagið en hann var einn besti maður liðsins og tókst að vinna deildina í Kasakstan árið 2019 og Ofurbikarinn ári síðar.

CFR Cluj hefur sex sinnum orðið meistari í Rúmeníu frá 2008 en liðið situr nú í 2. sæti rúmensku deildarinnar með 47 stig og á leik til góða á topplið Steaua Bucharest. Cluj gat komist á toppinn í gærkvöldi en tapaði 2-1 gegn FC Botosani.

Rúnar á 30 leiki að baki fyrir íslenska A-landliðið en hann er uppalinn á Króknum og hóf meistaraflokksferillinn með liði Tindastóls – sennilega aðeins 14 ára gamall. Frá Stólunum lá leiðin í HK og síðan Val þar sem hann sannaði sig rækilega og þaðan lá leiðin í atvinnumennskuna þar sem hann hefur spilað með liðum í Svíþjóð, Sviss, Kasakstan og nú Rúmeníu.

Feykir óskar Rúnari Má góðu gengi innan sem utan vallar.

- - - - - 

Heimild: Fótbolti.net og Mbl.is

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir