Sá dásamlegi tími, haustið :: Áskorandinn Emma Sif Björnsdóttir Hofsósi

Haustið er minn tími. Ekki það að ég sé ekki eins og hver annar sólardýrkandi Íslendingur sem rýkur út um leið og sólin fer að skína að sumri til, þá er bara eitthvað annað við haustið.

Það er, þegar umhverfið allt fer að taka á sig annan blæ, aðrir litir fara að koma í ljós. Misjafnt er hvaða mánuðir eru skilgreindir þeir, sem tilheyra haustinu, en ég kýs að hafa það september, október og fram í nóvember jafnvel -fer allt eftir veðri. Og haustin eru oft nefnilega alveg dásamleg, oft koma kvöld þar sem kyrrðin er svo mikil og fegurð himinsins svo fögur að það er nánast ólýsanlegt. Eitt af mínu uppáhalds er að fara í berjamó á haustin, þá fer ég með sonum mínum, systur eða frændsystkinum og við skellum okkur í móana.

Það er mögnuð lífsreynsla að fara lítið eitt upp fyrir bæinn, aðeins út fyrir eða jafnvel að keyra út á Skaga en þessi stund sem maður er að tína er dásamleg. Að vera úti í náttúrunni, í góðum félagsskap, spjalla og njóta er alveg eitthvað annað að upplifa. -já þeir þurfa ekki að vera stórir hlutirnir sem gefa manni þessi litlu korn í hjartað.

Annað er það við þennan tíma, en það eru kertaljósin og teppin. Já, eins og sést á þessum pistli þá er ég hreinræktaður nautnaseggur og þessi tími er gráupplagður fyrir fólk eins og mig. Að sitja heima, við kertaljós, undir teppi og lesa góða bók -fátt sem toppar það.

En annars tel ég það til forréttinda að búa á Íslandi, það sem við höfum hér og að búa við það sem við eigum, við erum forréttindapésar, við búum við forréttindi, við getum leyft okkur að njóta litlu hlutanna og augnablikanna. Hér er lífi okkar ekki ógnað, við höfum aðgang að heilbrigðisþjónustu og allir eiga að hafa aðgang að menntun. Fyrir það tel ég að við eigum að vera þakklát.

Mér finnst, í allri umræðunni nú til dags - þá gleymum við því kannski hversu gott líf okkar í raun er, að vandamál okkar eru kannski ekki svo mikil í stóra samhenginu. Ekki það að ég sé að segja að fólk hafi ekki vandamál, -allir eru að kljást við eitthvað, en við höfum alltaf val. Við höfum alltaf val um það að líta jákvætt á hlutina. Að sjá það jákvæða í stöðunni, að velja að líta jákvætt á hlutina. Því ef að við gerum það, þá verður allt svo mikið, mikið betra.
Ég sendi mína áskorun á snillinginn og bekkjarsystur mína, Valgerði Erlingsdóttur.

Áður birst í 36. tbl. Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir