Saga hrossaræktar – sigið af stað :: Kristinn Hugason skrifar

Hestar að verki við tjörusteypun Pósthússtrætis í Reykjavík. Úr sýningu SÍH Íslenski hesturinn á fullveldisöld 1918-2018. Ljósmynd: Magnús Ólafsson.
Hestar að verki við tjörusteypun Pósthússtrætis í Reykjavík. Úr sýningu SÍH Íslenski hesturinn á fullveldisöld 1918-2018. Ljósmynd: Magnús Ólafsson.

Í síðustu grein minni lauk ég umfjölluninni þar sem segir frá því að fyrsta hrossaræktarfélagið var stofnað. Þau voru síðan stofnuð hvert af öðru. Áður en ég vík nánar að því og uppbyggingu félagskerfis hrossaræktarinnar almennt séð ætla ég að rekja upphafssögu leiðbeiningarþjónustu í hrossarækt.

Upphaf leiðbeiningaþjónustu
Markvisst starf eða nokkur hvatning til framfara var lengi vel sáralítil en þó tók að örla á viðleitni í þá áttina sem átti rót sína í nýrri hugsun tilkomin í gegnum upplýsingastefnuna (sjá grein í 33. tbl. Feykis, 1. sept. sl., aðgengileg í sogusetur.is/Fræðsla/Greinar forstöðumanns í Feyki) og fyrir því beittu dönsk stjórnvöld sér gagnvart þegnum sínum hér á landi eins og annars staðar í konungsríkinu. Framfarafélög voru stofnuð og þá ekki síst í landbúnaði eins mikilvægur og hann var til að brauðfæða þjóðina og afla útflutningstekna. Í síðustu grein var getið um stofnun Suðuramtsins húss- og bústjórnarfélags árið 1837 en við það ártal er stofnun búnaðarsamtaka á Íslandi miðuð.

Fyrsti ráðunauturinn var ráðinn til starfa árið 1873 var það Sveinn Sveinsson. Hann var búfræðingur frá Stend í Noregi, dvaldi að auki við starfsnám bæði í Danmörku og Skotlandi og las við Búnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Vann hann hjá félaginu þar til hann varð skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri við stofnun skólans 1889, en lést 1892. Fleiri komu að leiðbeiningum, auk þess sem Landbúnaðarfélagið danska styrkti framfaraviðleitnina með ýmsum hætti.

Fyrsti ráðunauturinn í búfjárrækt, sem hafði m.a. með hrossaræktina að gera, var ráðinn til Búnaðarfélags Íslands árið 1902. Hann hét Guðjón Guðmundsson og „var einhver best menntaði og atorkusamasti búfræðingur hér á landi á sínum tíma.“ Hann útskrifaðist úr Búnaðarháskólanum í Kaupmanahöfn árið 1900, fyrstur Íslendinga. Stundaði svo sérnám í búfjárfræði við skólann í einn vetur og ferðaðist um Bretland til að kynna sér búfjárrækt og markaðsmál. Eftir námsferðina hóf hann störf hjá BÍ en varð skammlífur, lést 1908. Hann beitti sér fyrir stofnun fyrsta hrossaræktarfélagsins (árið 1904 eins og fyrr segir) og fyrstu hrossasýningunni á vegum Búnaðarfélags Íslands sem haldin var í Þjórsártúni árið 1906.

Fyrsta tilraun til að setja kynbótamarkmið
Við upphaf ráðunautsferils síns skrifar Guðjón merka grein sem birtist í Búnaðarritinu árið 1903 „Um kynbætur búpenings“, þar gerir hann allt í senn; að kynna fyrir lesendum lögmál kynbótafræðanna eins og menn þekktu þau þá og þær kynbótaaðferðir sem þá tíðkuðust og setja fram kynbótamarkmið. Hann er ærið hvass í skrifum sínum á köflum og var enda vart vanþörf á. Í kaflanum um „kynbætur á hestum“ segir hann m.a.: „Það má með sanni segja um alla búpeningsræktun vora, að henni sé mjög ábótavant. Einkum á þetta þó við hestaræktina, því hvernig sem á hana er litið, verður því ekki neitað, að hún er í mesta ólagi. Eg fyrir mitt leyti álít, að hestaræktin hafi verið betri hér á landi á söguöldinni en hún er nú.

Að minnsta kosti mælir flest með að góðu hestarnir hafi verið fleiri, stærri og betri en þeir eru á vorum dögum. En hvað sem því líður, er að minnsta kosti enginn efi á, að hestaræktin hjá oss er gagnólík því, sem hún er nú á tímum hjá öllum öðrum siðuðum þjóðum, en alveg á sama stigi og hjá hálfviltum þjóðflokkum í Mið- og Norðvestur-Asíu. Hjá þessum þjóðflokkum gengur sá sami rauði þráður gegnum hestaræktina eins og hjá oss, sem sé: að hafa hestana sem flesta, að brúka þá sem minnst, að láta þá sjálfa sjá sér fyrir nauðsynjum lífsins hið frekasta að unt er, og að skifta sér ekkert af, hvernig dýrin veljast saman eða á hvaða aldri þau æxlast.“

Síðan leggur Guðjón áherslu á í greininni að hrossin séu höfð mikið færri og betri, bendir á fordæmi ræktunarbúskapar „hjá menntaþjóðum“ og meira sé haft út úr hverjum grip, þ.e. notaðir meira á þau sé litið sem „dýrt verkfæri eða vinnuáhald“ og finnst bændur akka upp alltof mörgum hrossum í söluvon til útlanda. Að þessum þætti, hrossaútflutningi fyrr og síðar, mun ég koma að aftur síðar. Hvetur og til hertra takmarkana á lausagöngu stóðhesta og er sannfærður um að rétt sé að kljúfa hrossastofninn í tvö kyn: „Takmark það sem hrossarækt vor verður að keppa að er að framleiða tvö sérstæð kyn reiðhesta og áburðarhestakyn. Þetta er hins vegar ómögulegt á nokurn [svo] annan hátt en að leiða saman þau dýr, sem hafa sams konar byggingu og eiginleika. (Landbúnaðarsaga Íslands, 3. bindi, bls. 244-245. Jónas Jónsson, Skrudda, 2013).

Næstu ráðunautar
Næsti ráðunautur sem sinnti hrossaræktinni, Ingimundur Guðmundsson, hóf störf 1910 en lést af slysförum 1912. Næsti ráðunautur þar á eftir sem hafði með hrossaræktina að gera, var Sigurður Sigurðsson en hann hafði einhvern lengsta starfsaldur hinna eldri ráðunauta og gekk iðulega undir kenninafninu; Sigurður ráðunautur. Hann var í starfi í rúm 30 ár en varð þó ekki ýkjagamall, lést í starfi ríflega sextugur. Hann leiðbeindi aðallega á sviði nautgriparæktar og mjólkurmála en einnig á öðrum sviðum búfjárræktar svo og í jarðrækt, einkum áveitur.

Talið er að hann hafi komið í hverja einustu sveit landsins. Sagt er um Sigurð að hann hafi verið aldamótamaður í þess orðs bestu merkingu og hafi miðlað bændum af þekkingu sinni meira en ef til vill nokkur annar hafði gert og hvatt þá til dáða og framfara. Theodór Arnbjörnsson tók svo við sauðfjár- og hrossaræktinni af honum árið 1920. Theodór sinnti svo einvörðungu hrossaræktinni frá 1927 og var fyrsti ráðunauturinn sem hafði hrossaræktina sem aðalstarf en hafði þó að auki umsýslu með fóðurbirgðafélögunum og var féhirðir BÍ frá 1934. Theodór lést snemma árs 1939 á 51. aldursári. Meira er um Theodór fjallað í sérstakri grein sem birtist í 6. tbl. Feykis 7. febrúar 2018, sjá einnig á fyrrtilgreindum stað á heimasíðu SÍH.

Gunnar Bjarnason tók svo við landsráðunautsstarfinu að Theodóri látnum. Hann hóf störf í byrjun árs 1940. Þar á milli hafði Magnús Vigfússon annast hrossasýningar sumarið 1939 en hann var alvanur meðdómsmaður. („Búfræðimenntun Íslendinga“, höf. Guðmundur Jónsson í Íslenskir búfræðikandidatar, Félag íslenskra búfræðikandidata, 1974 og formála eftir Jónas Jónsson í Ættbók íslenskra hrossa, stóðhestar nr. 750-966, Búnaðarfélag Íslands, 1982).

Niðurlagsorð
Fyrstu ráðunautarnir, þ.e. þeir sem sinntu leiðbeiningum í hrossarækt, þar til fyrsti eiginlegi landsráðunauturinn í hrossarækt, Theodór Arnbjörnsson, hóf störf lögðu allir áherslu á að efla þyrfti kynbætur íslenska hestsins og aðgreina ræktun reiðhesta og vinnuhesta í anda stefnu Guðjóns Guðmundssonar. Það breyttist hins vegar við tilkomu Theodórs og var þeirri stefnu framhaldið æ síðan að undanteknu stuttu skeiði í upphafi tíma Gunnars Bjarnasonar.

Kristinn Hugason
forstöðumaður
Söguseturs íslenska hestsins.

Áður birst í 42. tbl.  Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir