SAH Afurðir reknar með hagnaði síðastliðið ár

SAH Afurðir héldu aðalfund sinn þann 3. maí sl. þar sem ársreikningur félagsins fyrir árið 2017 var lagður fram og samþykktur. Á vefsíðu félagsins segir að hagnaður af rekstri ársins hafi numið 5,5 milljónum króna en síðast varð hagnaður á rekstri félagsins árið 2013. Velta síðasta árs var tæpir tveir milljarðar króna og bókfært eigið fé í árslok var neikvætt um 153,2 milljónir króna. Ársverk á reikningsárinu voru 52. Reiknað er með tapi á fyrsta þriðjungi yfirstandandi reikningsárs.

Það sem af er árs hafa SAH Afurðir flutt út rúm 320 tonn af kindaafurðum og eru allar gærur og aukaafurðir seldar. Gengi krónunnar hefur ekki verið hagstætt útflytjendum og verðið óásættanlegt að því er segir á vefnum. Ennfremur segir að verð á lambakjöti á innanlandsmarkaði hafi farið lækkandi vegna  offramboðs og gríðarlegrar samkeppni. Tekin var ákvörðun um að greiða bændum 3% uppbætur á innlegg 2017 sem stefnt er á að borga út þann 25. maí.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um verð í komandi sláturtíð en slátrun mun hefjast hjá SAH Afurðum þann 5. september í haust og standa út október.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir