Sameining heilbrigðisstofnana gengin í gegn

Formleg sameining heilbrigðisstofnana á Norðurlandi, Suðurlandi og Vestfjörðum tók gildi þann 1. október. Á vef Velferðarráðuneytisins kemur fram að yfirstjórnum heilbrigðisstofnana fækkar um átta og aðeins ein heilbrigðisstofnun starfar í hverju heilbrigðisumdæmi þótt starfsstöðvar séu víða.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands varð til við sameiningu heilbrigðisstofnananna á Blönduósi, Sauðárkróki og í Fjallabyggð, heilsugæslustöðvanna á Dalvík og Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Forstjóri er Jón Helgi Björnsson.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands varð til við sameiningu heilbrigðisstofnananna á Selfossi, Höfn og í Vestmannaeyjum. Forstjóri er Herdís Gunnarsdóttir.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða varð til við sameiningu heilbriðgisstofnananna á Patreksfirði og í Ísafjarðarbæ. Forstjóri er Þröstur Óskarsson.

Fleiri fréttir