Sameining skrifstofa í landbúnaðarráðuneyti til að auka vægi matvæla

Á fundi sveitarstjórnar Svf. Skagafjarðar í síðustu viku var þeirri ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að hætta við ráðningu skrifstofustjóra á skrifstofu matvæla og landbúnaðar mótmælt.

Segir í bókun frá sveitarstjórn að ákvörðunin veki furðu þar sem á þriðja tug manna hafi sótt um starfið, matsnefnd hafi verið að störfum, búið að taka nokkra umsækjendur í viðtöl og sérstök hæfnisnefnd búin að skila ráðherra greinargerð, skv. heimildum fjölmiðla. „Ætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis er að sameina skrifstofuna, sem hefur verið ein þriggja fagskrifstofa sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undir skrifstofu alþjóðamála. Hættan á slíkum gjörningi er sú að vægi matvæla og landbúnaðar verði enn minna en þegar er sem er slæmt fyrir hagsmuni íslensks landbúnaðar. Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að afturkalla ákvörðun sína og ljúka því ráðningarferli sem var nær fullbúið,“ segir í bókuninni.

Feykir hafði samband við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og forvitnaðist um gang mála og var sagt að langur vegur væri frá því að vægi landbúnaðar muni minnka í kjölfar sameiningar skrifstofanna. Ákveðnar skipulagsbreytingar væru nú í miðju ferli og ástæðan sú að menn væru að hugsa þessi mál upp á nýtt og þá frekar með því að auka vægi matvæla.

Ráðuneytið hefur fengið miklar ákúrur fyrir þessi áform sín frá fjölda samtaka í landbúnaðargeiranum og viðurkennir viðmælandi Feykis að hart hafi verið brugðist við, en eigi ekki við rök að styðjast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir