Sameiningarhugleiðingar í Skagafirði - Íbúafundir í næstu viku

Horft yfir Skagafjörð af Mælifellshnjúki. Mynd: PF.
Horft yfir Skagafjörð af Mælifellshnjúki. Mynd: PF.

Vinna stendur nú yfir hjá Akrahreppi og Sveitarfélaginu Skagafirði að meta kosti, galla og tækifæri sameiningar sveitarfélaganna tveggja en ráðgert er að ákvörðun verði tekin í næsta mánuði um hvort þau hyggist ráðast í formlegar sameiningarviðræður sem lýkur þá með íbúakosningum um tillöguna.

Nýlokið er sameiginlegum vinnustofum með fulltrúum beggja sveitarfélaganna þar sem farið var yfir samantekt greiningar RR ráðgjafar um rekstur og starfsumhverfi þeirra og verða íbúafundir haldnir í hvoru sveitarfélagi fyrir sig þar sem helstu niðurstöður verða kynntar og kallað eftir sjónarmiðum og ábendingum íbúa. Tveir íbúafundir verða haldnir fimmtudaginn 26. ágúst, sá fyrri í Miðgarði kl. 16:30 til 18 en sá síðari í Héðinsminni kl. 20 til 21:30. Fundunum verður einnig streymt og geta þátttakendur sent ábendingar rafrænt inn á fundinn.

„Hreppsnefnd Akrahrepps hafði ágæta tilfinningu fyrir heildarmyndinni svo það er í raun ekki hægt að segja að greinargerð RR ráðgjafar hafi komið okkur á óvart. Það er hinsvegar gagnlegt að fá þetta yfirlit yfir stöðuna eins og hún er í dag og hvaða áskorunum og tækifærum Akrahreppur stendur frammi fyrir,“ segir Hrefna Jóhannesdóttir, oddviti Akrahrepps. „Að mínu mati eru helstu kostir sameiningar bætt þjónusta við íbúana, aukið rekstrarhagræði, sterkari fjárhagsgrundvöllur og öflugri stjórnsýsla. Ég tel að það sé afar erfitt fyrir fámenn sveitarfélög að standa undir þeim kröfum sem gerðar eru varðandi opinbera þjónustu, bæði fjárhagslega og félagslega, til lengri tíma litið. Það mun einnig reyna á fámenn sveitarfélög að fylgja eftir nauðsynlegri innviðauppbyggingu og viðhaldi á mannvirkjum en kostnaður pr. íbúa verður fljótt hár þegar fáir standa á bak við hann.“

Hrefna bendir á að einnig sé vert að hafa í huga að samkvæmt gildandi samningi um framkvæmd verkefna milli Akrahrepps og Svf. Skagafjarðar, er vald til ákvarðanatöku varðandi marga og mikilvæga málaflokka á höndum Svf. Skagafjarðar. „Íbúalýðræði er mikilvægt og má ekki gleymast í þessari umræðu,“ segir hún. Aðspurð um áhuga íbúa Akrahrepps á kosningum telur Hrefna að þá hafa sterkar skoðanir á þróun sveitarstjórnarmála í Skagafirði.

„Ég vil hvetja bæði íbúa Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar að kynna sér málin vel, bæði hvað varðar þjónustu og velferð íbúanna en einnig hvaða kröfur eru gerðar til sveitarfélaga í dag og hvaða þýðingu það hefur fyrir bæði sveitarfélögin. Ég vonast sérstaklega eftir góðri þátttöku á íbúafundunum þann 26. ágúst nk.“

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Svf. Skagafjarðar, segir að ekki hafi neitt komið verulega á óvart í samantekt ráðgjafanna. Sveitarfélögin séu vissulega ólík að stærð og umfangi en hann telur að framtíðarsýnin um hvers konar samfélag fólk vilji byggja upp í Skagafirði sé ekki svo ólík. „Ég tel að það felist miklir kostir í því að íbúar sem búa í þeirri sameiginlegu samfélagsgerð og menningarheild sem Skagafjörður er njóti sambærilegrar þjónustu á öllum sviðum og hafi sambærileg tækifæri til að hafa áhrif á þróun sveitarstjórnarmála í sínu samfélagi. Ég tel að samfélagið verði sterkara ef ákvörðun verður tekin um sameiningu og enn fremur að rödd Skagafjarðar verði enn sterkari út á við.“

Sigfús segist vona að íbúar sveitarfélagsins hafi almennt áhuga á sínu nærsamfélagi og noti sinn lýðræðislega rétt til að taka afstöðu til mögulegrar sameiningar Skagafjarðar í eitt sveitarfélag, ef til slíkra kosninga kemur. „Ég á von á að áhuginn sé meiri hjá íbúum í framhéraðinu en finnst brýnt að sem flestir láti afstöðu sína í ljós. Ég vil hvetja íbúa beggja sveitarfélaga til að kynna sér málefni sveitarfélaganna vel, tækifæri, kosti og galla sem í mögulegri sameiningu kunna að felast, þær kröfur sem gerðar eru til sveitarfélaga í dag og taka jafnframt þátt í fyrirhuguðum íbúafundum. Virk og upplýst umræða er alltaf af hinu góða.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir