Samkeppni um viðskiptahugmyndir í Húnaþingum

Úr Vatnsdal í Húnaþingi. Mynd:FE
Úr Vatnsdal í Húnaþingi. Mynd:FE

Verkefninu Ræsing Húnaþinga hefur nú verið hleypt af stokkunum með því að Nýsköpunarmiðstöð Íslands, í samvinnu við sveitarfélögin í Húnaþingum, efna til samkeppni um góðar viðskiptahugmyndir í Húnaþingum og er einstaklingum, hópum og fyrirtækjum boðið að sækja um þátttöku í verkefninu.

Fyrirkomulag samkeppninnar er á þá leið að þátttakendur fá tólf vikur til að vinna viðskiptaáætlun fyrir verkefnin sín. Á þeim tíma fá aðstandendur verkefnanna fræðslu og  mikinn stuðning verkefnisstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar og fleiri við gerð viðskiptaáætlunarinnar og hugsanlega við vöruþróun og frumgerðasmíði. Allir geta sótt um þátttöku í verkefninu. Umsóknarfrestur er til 10. nóvember.

Áhersla verður lögð á viðskiptahugmyndir sem:

  • Eru atvinnuskapandi á svæðinu.
  • Eru nýsköpun á svæðinu á einn eða annan hátt.
  • Auka framboð á atvinnu fyrir fólk með háskólamenntun.
  • Sem eru ekki í beinni samkeppni við önnur fyrirtæki á svæðinu.
  • Með einstakling eða teymi bak við hugmyndina sem er hæft og tilbúið að vinna að hugmyndinni.
  • Eru tæknilega framkvæmanlegar á þessum tímapunkti.
  • Hafa raunverulegan markhóp sem hægt er að sækja á, innanlands eða erlendis.

Dómnefnd tekur ákvörðun um hvort og þá hvaða verkefni fá viðurkenningu en hún verður skipuð fulltrúum sveitarfélaganna í Húnaþingi og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Verkefnin verða m.a. metin út frá nýsköpun á svæðinu, atvinnusköpun, viðskiptaáætluninni sjálfri, raunhæfni verkefnis og líkum á því að verkefninu verði hrint í framkvæmd að því er segir á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar.

Skráning er á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar og þar má einnig nálgast nánari upplýsingar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir