Samspil landsela og ferðamanna á Vatnsnesi
Nýlega birtust tvær vísindagreinar í alþjóðlegum ritrýndum vísindatímaritum. Fyrsti höfundur beggja greinanna er Sandra M. Granquist, deildarstjóri líffræðirannsóknasviðs Selasetursins og er þar greint frá rannsóknum sem hún stýrir á samspili landsela og ferðamanna á Vatnsnesi á Norðurlandi vestra.
Niðurstöður sýna að truflun vegna viðveru ferðamanna leiddi af sér aukna árvekni sela og hafði áhrif á útbreiðslu þeirra. Í ljós kom einnig að hegðun ferðamanna skiptir máli og hægt er að draga úr truflun sem selurinn verður fyrir ef ferðamenn haga sér rólega á selskoðunarstaðnum.
Gerð ferðamannahópa (stakir ferðamenn, pör, fjölskyldur og hópar) hafði áhrif á hegðun, en stakir ferðamenn og pör voru rólegri heldur en fjölskyldur og hópar.
Í greininni er lagt til að hægt sé að lágmarka áhrif ferðamennsku með notkun hegðunarreglna, þar sem æskileg hegðun í návíst villtra dýra sé útskýrð.
Greinina í heild má lesa hér.