Samstarfsnefnd um sameiningu hefur hafið störf
Húni.is segir frá því í dag að samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu hafi komið saman einu sinni frá því að sveitarfélögin fjögur, Blönduós, Skagaströnd, Húnavatnshreppur og Skagabyggð, samþykktu að hefja sameiningaviðræður.
Þessi fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn í Skagabúð þann 31. október síðastliðinn. Þar var formanni nefndarinnar, Þorleifi Ingvarssyni, oddvita Húnavatnshrepps, falið að afla upplýsinga frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um framlög sjóðsins vegna vinnu við sameiningu og einnig að gera tillögu að ráðgjafafyrirtæki vegna aðstoðar við undirbúningsvinnu við verkefnið. Á næsta fundi nefndarinnar, sem fyrirhugaður er í desember, verður að líkindum ákveðið tímaplan vegna fyrirhugaðrar sameiningar sveitarfélaganna.
Í samstarfsnefndinni eru tólf fulltrúar, þrír frá hverju sveitarfélagi. Vignir Sveinsson, Dagný Rós Úlfarsdóttir og Magnús Björnsson frá Skagabyggð, Arnar Þór Sævarsson, Valgarður Hilmarsson og Hörður Ríkharðsson frá Blönduósbæ, Einar Kristján Jónsson, Þorleifur Ingvarsson og Þóra Sverrisdóttir frá Húnavatnshreppi og Magnús B. Jónsson, Adolf H. Berndsen og Steindór R. Haraldsson frá Skagaströnd.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.