Samtök meðlagsgreiðenda stofnuð

Í gær, 3. maí voru formlega stofnuð Samtök meðlagsgreiðenda. Stofnfundur samtakanna fór fram á Café Milanó í Faxafeni. Á fundinum voru samankominn hópur fólks sem lætur sér réttindi meðlagsgreiðenda varða, og vill knýja fram réttarbætur til handa þeim.  Gunnar Kristinn Þórðarson var kosinn formaður stjórnar samtakanna og Jón Hannes Stefánsson varaformaður. Meðstjórnendur eru Arnar Þór Einarsson, Gunnar Ásgeirsson og Svandís Edda Halldórsdóttir.

Meðlagsgreiðendur á Íslandi sem jafnframt eru umgengnisforeldrar eru um 12.000 talsins, bæði konur og karlar. Þessi hljóði hópur hefur aldrei fyrr átt sér neinn málsvara, því er sérlega ánægjulegt að sjá þann áhuga og stuðning sem er á stofnun samtakanna.

Markmið samtakanna er að standa vörð um réttindi meðlagsgreiðenda og knýja fram réttarbætur til handa þeim, m.a. með bættri aðkomu þeirra að bótakerfinu. Eins og sakir standa fá meðlagsgreiðendur t.d. engar barnabætur og er aðkoma meðlagsgreiðenda að vaxta- og húsaleigubótakerfinu nánast engin þar sem greiðendur meðlaga hafa sömu stöðu og barnslausir einstaklingar, sem ýmist eru einstæðir eða komnir í sambúð. Bætur til handa þeim skerðast því eins og um barnslausa einstaklinga sé að ræða. Einnig tekur núverandi kerfi meðlagsgreiðslna ekki tillit til þess hvernig umgengni barna er háttað sem oft á tíðum deilist jafnt milli foreldra með t.d. viku og viku fyrirkomulagi.

Meðal samþykkta félagsins sem samþykktar voru á stofnfundi eru að:

Fundin verði út opinber lágmarks neysluviðmið fyrir meðlagsgreiðendur. Innheimtustofnun sveitafélaga, Umboðsmaður skuldara auk annarra opinberra stofnanna styðjist við opinber lágmarks neysluviðmið meðlagsgreiðenda við innheimtu krafna. Fyrirgreiðslur Lánastofnunar íslenskra námsmanna taki tillit til lágmarks neysluviðmiða meðlagsgreiðenda auk meðlagsgreiðslna. Meðlagskröfur skerði ekki atvinnuleysisbætur eða lágmarks lífeyri. Jafnrétti náist í samfélaginu almennt og á öllum sviðum samfélagsins. Samtökin styðja launajafnrétti og jafna aðkomu kvenna og karla á vinnumarkaði. Samtökin leggja áherslu á að hið opinbera styðji þétt við bakið á lögheimilisforeldrum og að velferð þeirra sé tryggð. Samtökin leggja áherslu á að veita meðlagsgreiðendum lagalega ráðgjöf, og annan stuðning eftir því sem efni félagsins leyfa.

Eins og sést á ofangreindum samþykktum má segja að Samtök Meðlagsgreiðenda séu fyrst og fremst hagsmunasamtök fyrir bættum réttindum barnafjölskyldna með fjölskylduform nútímans að leiðarljósi. Á undanförnum árum hefur orðið breyting til hins betra þar sem umgengni barna við báða foreldra sína hefur aukist og þ.a.l. hafa umgengnisforeldrar fengið aukna ábyrgð við uppeldi, framfærslu og ummönnun barna sinna. Í ljósi þessara bættu og breyttu aðstæðna telja Samtök Meðlagsgreiðenda tímabært að endurskoðun fari fram á því kerfi sem fjölskyldur búa við nú. Kerfi sem sett var á stofn fyrir mörgum áratugum síðan þegar samfélagslegar aðstæður voru á allt annan veg en þær eru nú.

Það er einlæg von Samtaka Meðlagsgreiðenda að geta átt gott og gæfuríkt samstarf við hlutaðeigandi stofnanir og þá aðila sem koma að málefnum samtakanna. Að lokum skal það tekið sérstaklega fram að Samtök Meðlagsgreiðenda munu aldrei fara fram á að bæta hag félagsmanna sinna á kostnað annarra, t.d. lögheimilisforeldra. Samtökin styðja jafnrétti, sanngirni og bætta hagi barna og fjölskyldna þeirra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir