Sár í hjartastað héraðsbúa

Sár í hjartastað, er hægt að minnka skerta þjónustu og Landsbyggðar morð voru setninga r sem lesa mátti á kröfuskiltum heimamanna sem í gær gengu fylktu liði frá Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi að félagsheimilinu þar sem haldinn var borgarafundur um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu.

-Við munum standa vörð um þau mannréttindi að fá að dvelja í heimbyggð þegar veikindi berja að dyrum, sagði Ásgerður Pálsdóttir formaður Samstöðu í ávarpi til fundarins.  –Þetta er ekki niðurskurður heldur tilfærsla á störfum frá landsbyggðinni á stærri þéttbýliskjarna, bætti Ásgerður við. Ásgerður talaði í ávarpi sínu einnig um þann kostnað sem tilfærslan leggur á íbúa í dreifbýli enda sendi enginn fjölskyldumeðlim einan í annað hérað til þess að leggjast á sjúkrahús.

Ágúst Þór Bragason, formaður bæjarráðs Blönduósbæjar sagði í ávarpi sínu að heimamenn myndu þurfa að berjast fyrir því að eiga sama rétt og aðrir landsbyggð þegar kæmi að sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu.

Í máli Einars Óla Fossdal kom fram að niðurskurður af þessari stærðargráðu þýði að 70 – 80 manns gætu þurft að flytja af svæðinu vegna þess að því fólki sem missi vinnu fylgi oft á tíðum stórar fjölskyldur.  Oft er þörf en nú er nauðsyn að við stöndum saman öll sem eitt og látum ekki ganga yfir okkur á skítugum skónum. 

Valbjörn Steingrímsson forstöðumaður sagði að exelskjöl þau sem ráðuneytisstarfsfólk flaggaði gjarnan gengu hreinlega ekki upp í raunveruleikanum því stofnanir eigi ekkert eftir að skera niður nema starfsfólk. Sagði Valbjörn að gera mætti ráð fyrir að hátt í 6 – 800 legudagar færðust yfir á FSA en þar kostar hvert legurími um helmingi meira á mánuði en legurími á HSB.

-Óvissa er vond tilfinning gæti endað með magasári þá fór fólk gjarnan á sjúkrahús en nú er það liðin tíð, sagði Bóthildur Halldórsdóttir í ræðu sinni.   Hætta að vera hrædd og vera áfram reið bið ykkur að berjast með mér. Skora á ráðamenn þjóðarinnar sem eru í vinnu hjá okkur að stoppa þennan ófögnuð. Heilbrigðisstofnunin var, er og verður hornsteinn samfélagsins og ég er  tilbúin að verja hana á meðan ég hef heilsu. Eftir það vil ég geta lagst áhyggjulaus inn á stofnunina mína og lesið Guðrúnu frá Lundi ef mér sýnist svo. Það er ef ég verð ekki dauð, sagði Bóthildur. –Hingað og ekki lengra, sagði hún að endingu og gall glymjandi lófaklapp fyrir.   

Ásbjörn Óttarsson á sæti í fjárlaganefnd alþingis en hann sagði í sínu ávarpi að það fyrsta sem hann hafi gáð að þegar hann sá frumvarpið hafi verið stofnanirnar á Sauðárkróki og Blönduósi sem í fyrra hafi fengið helmingi minna en aðrar stofnanir. Við þingmenn í kjördæminu eru búnir að leit mikið eftir því að fá útskýringar á þeim niðurskurði en ekki fengið. Síðast áttum við fund  með heilbrigðisráðherra í júní og þá var talað um aukið samstarf eða sameiningu tveggja stofnanna en síðan kom þessi óskapnaður.

Gunnar Bragi Sveinsson talaði um alla þá vinnu sem að baki er til þess að auka störf úti á landi og nú væri búið að taka alla þá vinnu og samfélagið eins og við þekkjum og senda það tugi ára aftur í tímann. -Eins vil ég taka það fram að hvort sem þetta eru nýjar eða gamlar tillögur og sama frá hvaða flokki þær komu þá eru þær jafn vitlausar fyrir því og þeim þarf að mótmæla og það munum við gera, sagði Gunnar Bragi.

Ekki fleiri þingmenn mættu til fundarins.  

Miklar umræður voru á fundinum sem lauk með samþykkt á ályktun fundarins. „Íbúafundur sem haldinn er á Blönduósi þann 12. október 2010 mótmælir harðlega boðuðum  niðurskurði hjá Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi sem birtist í fjárlagafrumvarpinu 2011. Heilbrigðisstofnunin hefur á undanförnum árum þurft að sæta miklum niðurskurði og er nú svo komið að vegið er illilega að lögboðinni heilbrigðisþjónustu og velferð íbúa í Austur-Húnavatnssýslu. Við þetta verður ekki unað.  Skorað er á ríkisstjórnina að draga til baka  þessa aðför að  Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir