,,Saumaáhuginn leiddi til allslags tilrauna“

Guðrún Björg Guðmundsdóttir, oftast kölluð Gunna, fædd og uppalin í Húnavatnssýslu, búsett í Jöklatúninu á Króknum.

Hvernig byrjaðir þú og hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? Ég hef stundað hannyrðir svona frá tvítugsaldri, kláraði Húsmæðraskólann á Varmalandi í Borgarfirði 1975/6 og upp frá því byrjaði ég að sauma, fyrst mikið af fötum á börn og þá voru glansgallarnir í tísku sem ég saumaði mikið af á strákana mína og einnig seldi ég afraksturinn. Saumaáhuginn leiddi til alls slags tilrauna og saumaði ég dömuveski og fleira úr leðri og roði og seldust þau eins og heitar lummur um landið vítt og breitt. Ég prófaði bútasaum, hef málað á steina, málað á þurrburstað keramik og ég hef þæft hannyrðir úr ull. Ég hef einnig prjónað mikið í gegnum tíðina, mest nú á barnabörnin og hef m.a. hannað mynstur í peysur handa sonum mínum sem stunda mikla fjallamensku þar sem Toyota bílar, og nú næst Benz merkin, eru í forgrunni.

Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? Mér finnst allt skemmtilegt og einhvern veginn í raun það sem ég er að fást við hverju sinni, núna prjóna ég mest einhverjar flíkur á barnabörnin.

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? Nú er ég ekki að gera neitt sérstakt, en líklega fitja ég upp fljótlega að einu ungbarnasetti.

Hvar færðu hugmyndir? Úr hannyrðablöðum og af netinu.

Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Ég held að það sé leðurtöskuframleiðslan og svo auðvitað prjónaskapurinn.

Eitthvað sem þú vilt bæta við? Hannyrðir eru góð afþreying til að eyða tíma þegar ekki er verið í vinnunni, golfi eða Oddfellowstarfi.

Áður birst í tbl.22 Feykis 2023.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir