Seltirningar skelltu Stólunum á Króknum

Stefan Lamanna liggur í gervigrasinu. Gróttumenn voru ófeimnir við að brjóta á kappanum. MYND: ÓAB
Stefan Lamanna liggur í gervigrasinu. Gróttumenn voru ófeimnir við að brjóta á kappanum. MYND: ÓAB

Gróttumenn komu í heimsókn á Krókinn í dag og öttu kappi við lið Tindastóls í 12. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Heimamenn höfðu gert sér væntingar um að byrja síðari umferðina í deildina á jákvæðan hátt eftir ágæta leiki upp á síðkastið. Gestirnir voru hinsvegar sterkari aðilinn frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og fjögur mörk þeirra í síðari hálfleik var kannski einum of mikið af því vonda en lokatölurnar engu að síður 0-4.

Leikmannaglugginn er nú opinn og Stólarnir höfðu krækt í einn erlendan leikmann, Nile Alexander Walwyn, sem kom frá ÍR. Hann fór meiddur af velli eftir hálftíma leik í dag. Í raun vantar liðið fyrst og fremst sterkan framherja til að geta barið betur frá sér út tímabilið. Það vantaði Jóhann Ólafs í liðið í dag en í hans stað var Konni fyrirliði færður af miðjunni og í fremstu víglínu, væntanlega með það að markmiði að hann næði að halda boltanum uppi á toppi og ná að dreifa spilinu. Sú tilraun gaf ekki góða raun og nokkuð ljóst að kraftar hans nýtast best í hjarta liðsins. 

Sem fyrr segir tók Grótta strax völdin í leiknum og þeir Seltirningar náðu að spila boltanum ágætlega og leysa þær stöður sem upp komu í leiknum mun betur en Stólarnir sem náðu litlum takti í leik sinn. Santiago hafði nóg að gera í marki Stólanna og varði oft með miklum ágætum. Engu að síður voru það Stólarnir sem fengu besta færi fyrri hálfleiks þegar Arnar Ólafs fékk fína stungu inn fyrir vörn Gróttu, hann brunaði aleinn inn á teig og setti boltann framhjá Jóni Rivine í marki gestanna en því miður í utanvert hliðarnetið. Staðan var 0-0 í hálfleik.

Björn Axel Guðjónsson gerði fyrsta mark leiksins á 54. mínútu þegar hann slapp inn fyrir vörn Stólanna eftir ágætt spil og hann kláraði þröngt færi laglega. Á 67. mínútu unnu gestirnir síðan tvö návígi á vallarhelmingi Stólanna, sem vildu reyndar fá dæmda aukaspyrnu, og í kjölfarið skoraði Ásgrímur Gunnarsson með góðu skoti. Eftir þetta var því miður mesti vindurinn úr liði Tindastóls og lið Gróttu opnaði vörn heimamanna hvað eftir annað of auðveldlega. Þeir bættu við tveimur ódýrum mörkum á 87. og 89. mínútu en þar voru á ferðinni Pétur Árnason og Ásgrímur með sitt annað mark. Úrslitin 0-4.

Það var eitthvað ójafnvægi í leik Stólanna í dag. Konni fann sig engan veginn í framlínunni og Benni komst aldrei í takt við leikinn. Helsta ógn Stólanna upp á síðkastið hefur verið hraði og áræðni Stefans Lamanna og hann átti nokkra ágæta spretti en Gróttumenn tóku hann engum vettlingatökum, brutu ítrekað á honum þannig að hann fór heldur hægar yfir þegar á leikinn leið. Varnarleikur Tindastóls var áhyggjuefni í síðari hálfleik en lið Gróttu er skipað góðum leikmönnum sem kunnu að komast framhjá andstæðingum sínum og spila boltanum vel.

Að viku liðinni spila Stólarnir aftur hér heima en þá kemur topplið Aftureldingar úr Mosfellsbæ í heimsókn. Miðvikudaginn 1. ágúst mæta síðan Þróttarar úr Vogum á Krókinn þannig að það er nóg af fótbolta á næstunni. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir