Síðasti vinnufundurinn með Blue Sail
Breska ráðgjafarfyrirtækið Blue Sail hefur frá síðastliðnu hausti unnið með verkefnastjóra og stýrihópi Norðurstrandarleiðar/Arctic Coast Way við uppbyggingu á ferðamannaleiðinni á norðurströnd Íslands. Nú eru síðustu vinnufundir Blue Sail með afþreyingar- og hagsmunaðilum framundan en þeir verða haldnir á Greifanum á Akureyri þann 12. september nk. Fundirnir eru fyrir aðila af öllu svæðinu og með þeim er stefnt að því að sameina alla þá sem aðkomu hafa að Norðurstrandarleiðinni/Arctic Coast Way sem eina heild og vinna þar að sameiginlegum hagsmunum. Frá þessu segir á vef Markaðsstofu Norðurlands.
Í apríl sl. tóku yfir 100 afþreyingar- og hagsmunaðilar þátt í þrem vinnufundum á vegum Blue Sail þar sem hugmyndir og tækifæri til upplifunar voru rædd og metin. Í sumar kom svo Neen Kelly frá Blue Sail í vettvangsferð um svæðið og í framhaldi af þeirri vinnu munu þær Amanda Shepard og Lorna Easton koma til að halda áðurnefnda vinnu- og kynningarfundi með hagsmunaðilum.
Fundirnir, sem eru tveir, verða eins og áður segir haldnir þann 12. september á Greifanum á Akureyri. Dagskrá þeirra er þannig:
1. Matartengd vinnusmiðja kl. 9.45-13.00
Allir eru velkomnir á fundinn sem telja mat og drykk mikilvægan hluta af upplifun ferðamanna um Norðurstrandarleiðina/Arctic Coast Way. Veitinga- og kaffihúsaeigendur, kokkar, matvælaframleiðendur, bakarar, bændur og ferðaskipuleggjendur sem vilja bjóða upp á mat/drykk sem hluta af upplifun í ferðum sínum eru réttu aðilarnir til að ræða og vinna saman að þróun einstakrar matar upplifunar á Norðurstrandarleiðinni á þessum fundi auk annarra áhugasamra hagsmunaðila.
2. Kynningar- og vinnufundur kl. 14.15-17.00
Allir sem áhuga hafa á ferðamannaveginum „Norðurstrandarleið / Arctic Coast Way” eru velkomnir á þennan fund til að fá yfirsýn á stöðu mála á vinnu Blue Sail. Á fundinum verður einnig unnið áfram á gagnvirkan hátt með praktísk verkefni varðandi hvernig hægt er að þróa fleiri upplifanir og bæta þær sem fyrir eru auk þess að skoða praktískar útfærslu á verkfærakassa sem Blue Sail, Markaðstofa Norðurlands og stýrihópurinn er að láta hanna.
Á fundunum mun Blue Sail kynna helstu áherslur ferðamannavegarins sem notaðar verða í kynningarefni leiðarinnar, auk þess að draga fram hvar styrkir og áskoranir liggja þegar horft er til þeirra afþreyingar sem við bjóðum upp á. Meðal annar verða dregnar fram þær tillögur Blue sail varðandi hvaða „einstakar upplifanir” eða svokallaðar „Hero Experiences” verða kynntar þegar ferðamannaleiðin verður afhjúpuð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.