Silli kokkur styður kvennalið Tindastóls
Silli kokkur og hans lið er vel kunnugt á Sauðárkróki en þar kemur hann reglulega með matarvagninn sinn og býður upp á gómsætan götumat.
Miðvikudaginn 13 ágúst ætlar Silli að vera fyrir utan sundlaug Sauðárkróks milli kl: 16 og 20 með matarvagninn og bjóða upp á sérstakan hamborgara sem er búinn til sérstaklega af þessu tilefni. Allur ágóði rennur til kvennaliðs Tindastóls. Silli kokkur segir af þessu tilefni: „Margt smátt gerir eitt stórt. Ég og Elsa mætum og erum svo glöð að geta gefið eitthvað til baka. Hlökkum til að sjá alla.”
Feykir tekur undir með Silla og hvetur fólk til að mæta og næla sér í gómsætan borgara og styðja í leiðinni við stelpurnar.
Næsti leikur hjá stúlkunum er svo á fimmtudaginn 14. Ágúst kl: 18 á Sauðárkróksvelli en þá er andstæðingurinn Þróttur Reykjavík og þarf liðið allan stuðning sem í boði er til að sigra leikinn. /hmj