Símar og snjallúr bannaðir í Grunnskóla Húnaþings vestra

Í Grunnskóla Húnaþings vestra er stefnt að því að banna síma og snjallúr í skólanum á skólatíma og í frístund. Ástæður þess eru fyrst og fremst tvíþættar; ný persónuverndarlög og vísbendingar um að símar geri nemendum ógagn í námi og félagslegum samskiptum.

Á heimasíðu skólans kemur fram að persónuverndarlög geri mjög strangar kröfur til skóla að myndbirtingar eða myndskeið verði ekki tekin án vitundar og samþykkis. „Vandséð er hvernig starfsfólk skólans getur framfylgt þessum lögum ef nemendur og starfsfólk eru með síma í frímínútum eða tímum,“ segir á síðunni.

Starfsfólk skólans ætla að það sé nemendum fyrir bestu og námslega og félagslega nauðsynlegt að nemendur fái andrými án síma á skólatíma og í frístund. Sömu reglur munu gilda um starfsfólk innan um nemendur, enda símar í hverri kennslustofu og því auðvelt að kalla til aðstoð eða ná í starfsfólk ef þörf krefur.

Þessi stefna verður tekin til umræðu í nemendaráði, skólaráði og fræðsluráði og er foreldrum, nemendum og starfsfólki bent á að koma athugasemdum til skólastjórnenda, skólaráðs eða fræðsluráðs. Skólaráðsfundur verður 20. september kl. 15:00 og fræðsluráðsfundur 26. september.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir