Sina Scholz er knapi ársins hjá Skagfirðingi

Knapi ársins, Sina Scholz. Mynd: Skagfirðingur.is.
Knapi ársins, Sina Scholz. Mynd: Skagfirðingur.is.

Árshátíð og uppskeruhátíð Hestamannafélagsins Skagfirðings var haldin laugardaginn 3. nóvember í Melsgili í fyrrum Staðarhreppi. Margir voru sæmdir verðlaunum fyrir góðan árangur á keppnisvellinum og félagi ársins var valinn í fyrsta sinn. Veislustjóri kvöldsins var Ingimar Ingimarsson á Ytra- Skörðugili.

Á heimasíðu Skagfirðings kemur fram að veitt hafi verið verðlaun fyrir afreksknapa ársins, Stefán Logi Haraldsson stjórnarmaður LH og Skagfirðingur flutti ávarp og gefnir voru folatollar undir fjóra gæðinga, Kná frá Ytra – Vallholti, Nóa frá Saurbæ, Glúm frá Dallandi og Skutul frá Hafsteinsstöðum. Helga Sig. framreiddi þriggja rétta máltíð og hljómsveitin Staksteinar léku fyrir söng og dansi fram á nótt. 

Knapi ársins var Sina Scholz en hún náði frábærum árangri með hestinn sinn Nóa frá Saurbæ en þau voru meðal annars í A-úrslitum í A-flokk á Landsmóti, sigruðu B-úrslit og lentu í 6.sæti í fimmgang á Íslandsmóti ásamt því að sigra A-flokk á Félagsmóti Skagfirðings og fimmgang á íþróttamóti UMSS.

Í fyrsta skipti var kosinn félagsmaður ársins þar sem allir félagsmenn Skagfirðings gátu kosið þann sem vann ötullega fyrir félagið á árinu. Í ár var félagi ársins Unnur Rún Sigurpálsdóttir.

Tilnefnd til íþróttaknapa ársins voru Sina Scholz, Rósanna Valdimarsdóttir og Mette Mannseth. Mette var íþróttaknapi ársins þetta árið en hún náði frábærum árangri á íþróttamóti UMSS í vor.

Til gæðingaknapa ársins voru Sina Scholz, formaðurinn Skapti Steinbjörnsson og Egill Þórir tilnefnd. Skapti Steinbjörnsson sigraði gæðingaknapa ársins annað árið í röð en hann sigraði B-flokk og lenti í 2. sæti í A-flokk á Fákaflugi og Félagsmóti Skagfirðings.

Til skeiðknapa ársins voru tilnefnd Elvar Einarsson, Finnbogi Bjarnason og Þórarinn Eymundsson. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi verðlaun eru veitt og í ár sigraði Elvar Einarsson en hann var meðal annars í 7. sæti á Landsmóti og sigraði 250 og 150 metra skeið á íþróttamóti UMSS.

Í áhugamannaflokki voru tilnefnd Sveinn Brynjar Friðriksson, Sveinn Einarsson og Birna Sigurbjörnsdóttir. Birna sigraði þennan flokk en hún sigraði tölt og var í öðru sæti í sínum flokki á íþróttamóti UMSS ásamt góðum árangri í Skagfirsku mótaröðinni í vetur.

Í ungmennaflokk voru Guðmar Freyr Magnússon, Unnur Rún Sigurpálsdóttir og Viktoría Eik Elvarsdóttir tilnefnd.

Í þessum flokki var mjótt á munum en Viktoría Eik var knapi ársins í ungmennaflokki en hún var í úrslitum á Landsmóti og Íslandsmóti ásamt góðum árangir á íþróttamóti UMSS.

Myndir frá kvöldinu má nálgast á skagfirdingur.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir