Sjaldséðir fuglar á Norðurlandi :: Bleshæna og hvítur hrossagaukur

Máltækið „Sjaldséðir hvítir hrafnar“ öðlast meiri vigt og trúverðugleika þegar maður lítur albínóa af hvaða fuglategund sem er. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvítan hrossagauk sem sást í grennd við Hofsós á dögunum. Mynd: Elvar Már Jóhannsson.
Máltækið „Sjaldséðir hvítir hrafnar“ öðlast meiri vigt og trúverðugleika þegar maður lítur albínóa af hvaða fuglategund sem er. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvítan hrossagauk sem sást í grennd við Hofsós á dögunum. Mynd: Elvar Már Jóhannsson.

Fágætir og sjaldséðir fuglar á Íslandi hafa prýtt forsíðu Feykis síðustu tveggja blaða en þar voru á ferðinni bleshæna við Blönduós, sem Höskuldur Birkir Erlingsson náði að mynda, og hvítur hrossagaukur sem Elvar Már Jóhannsson fangaði á mynd við Hofsós.

Elvar Már Jóhannsson, áhugaljósmyndari á Króknum, segir í samtali við blaðamann Feykis hafa fengið ábendingu um að fuglinn væri á svæðinu rétt norðan Hofsóss á sunnudagsmorguninn og hafi fundið hann mjög fljótt. Elvar segist ekki vita hvort gaukurinn sé þar enn en hann hafi verið að þvælast með öðrum venjulegum hrossagaukum þarna um nágrennið. „Svona hef ég aldrei séð. En fallegur er hann,“ skrifar Elvar á Facebook-síðu sína.

Sást einnig í fyrra
Þó vissulega sé um sjaldgæfan fugl að ræða þá má sjá á gúggli um netheima að þannig hrossagaukar hafi komið hingað á Frónið nokkrum sinnum í gegnum áratugina.

Þannig er sagt frá því á vef Náttúru Skagafjarðar að Anna Þóra Jónsdóttir hafi rekið augun í hvítan hrossagauk á bænum Vatnsleysu í Skagafirði fyrir ári síðan og náði einnig af honum mynd. Má vera að um sama fugl sé að ræða en á síðunni kemur fram að það sé fremur fágætt að sjá albínóa á meðal fugla en albínóar eru einstaklingar sem ekki eru með litarefni. Algengara sé að sjá fugla sem eru albínóar að hluta og eru þá ljósir eða með ljósa bletti, en ekki skjannahvítir.

„Lífslíkur albínóa eru minni en annarra fugla meðal annars vegna þess að þeir stinga í stúf í náttúrunni og geta ekki auðveldlega falið sig fyrir óvinum með hjálp felulitanna sem eru þeim náttúrulegir,“ segir á natturaskagafjardar.is.

Hún er vel breiðblesótt hænan sem Höskuldur
Birkir Erlingsson náði á mynd fyrir stuttu enda
dregur hún nafn sitt af blesunni. Mynd: HBE.

Bleshæna við Blönduós

Það er ekki á hverjum degi sem menn rekast á bleshænu hér á landi en ein slík varð þó á vegi Höskuldar Birkis Erlingssonar á Blönduósi fyrir skömmu. Þrátt fyrir margra ára náttúruskoðun og myndatökur segir Höskuldur þetta í fyrsta sinn sem hann sjái bleshænu, hvað þá að ná að mynda eina slíka. Segist hann hafa fengið ábendingu um að fuglinn væri í nágrenninu og þá er ekki að sökum að spyrja.
Höskuldur birti myndir af fuglinum á Facebook-síðu sinni og lætur eftirfarandi texta fylgja með, örlítið breyttum:

„Bleshæna (fræðiheiti: fulica atra), einnig kölluð vatnahæna og vatnaönd, er af relluætt. Bleshæna er flækingur á Íslandi en hefur þó orpið hér. 
Bleshænan lifir við ferskvatnstjarnir og vötn um mestalla Evrópu, Asíu, Ástralíu og Afríku. Nýlega hefur hún einnig numið land á Nýja-Sjálandi. Hún heldur sig helst á mildari stöðum en færir sig um set sunnar og vestar í mestallri Asíu þegar vötn og tjarnir leggur á veturna.

Hún er um 32 — 42 cm löng og vegur um 585 til 1100 gr. Hún er að mestu svört fyrir utan hvíta rák framan á höfðinu sem hún dregur íslenska nafnið sitt af, rönd sem líkist blesu á hestum. Frekar kubbslega vaxin, með stutt stél, fæturnir mjög aftarlega á búknum og langar tær. Bleshænan er alæta og borðar jafnt egg annarra fugla sem og þörunga, ýmsan gróður, fræ og aldin.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir