Sjálf kann ég ekki að „sitja með hendur í skauti“

Sigrún Grímsdóttir er fædd 1942 í Saurbæ í Vatnsdal og uppalin þar, síðar bóndi í 49 ár. Síðustu fimm árin hefur hún búið á Blönduósi. Hún segir lesendum Feykis frá því hvað hún er með á prjónunum þessa dagana.

Gefum Sigurúnu orðið: „Ég man ekki eftir mér öðruvísi en með einhvers konar handavinnu en snillingurinn móðir mín kenndi okkur systrum. Dýrmæt minning um okkur allar sitjandi við stofuborðið með hannyrðir við hæfi. Ljósgjafinn var stór olíulampi. Síðar fór ég í Kvennaskólann á Blönduósi og lærði þar margt nytsamlegt. 

Sem sveitakona fyrir síðustu alda-mót, þurfti ég að sauma flest öll föt á fjölskylduna, jafnt spari- og utanyfirföt. Stoltust var ég þegar vel tókst til að gera fallegar flíkur upp úr gömlu. Nú er talað um hönnun og list – þetta sem þótti sjálfsagt mál.

Einnig prjónaði ég allt sem þurfti og naut þá gömlu prjónavélarinnar úr búi ömmu minnar. Það ver sérstök athöfn, vetur hvern, að setja upp þetta flikki og prjóna ullarboli, gammosíur, sokka og peysur.

Svo komu lopapeysurnar til einka-nota og í mörg ár hef ég prjónað fyrir Handprjónasambandið.

Útsaum sinnti ég framan af en hef nú snúið mér að hekli og prjóni. Eitt hef ég gert svolítið að ,,mínu“, það eru fingravettlingar með nafni og rós. Upplagt í tækifæris- og jólagjafir.

Ég hef gaman af allri handavinnu en núna finnst mér gaman að ögra sjálfri mér með nýjum og ögn flóknum uppskriftum, einnig að prufuprjóna fyrir hönnuð.

Ég er svo heppin að í Félagsstarfi eldri borgara á Blönduósi er til mikið af skemmtilegum uppskriftum og efni og flinkir leiðbeinendur. Eiginlega fyllist ég valkvíða þegar velja skal eitthvað eitt.

Hannyrðir er stórt orð, sem nær yfir svo margt, líka smíðar. Mér finnst alveg nauðsynlegt að allir menn og konur tileinki sér eitthvað af því tagi. 

Mörg listaverkin verða til samhliða sjónvarpsáhorfi, eða góðvinaspjalli. Sérstaklega þegar árin færast yfir og hægist um, er svo gott að dunda sér við handverk. Sjálf kann ég ekki að „sitja með hendur í skauti“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir