Sjávarborg opnar senn á Hvammstanga

Sveitasetrið Gauksmýri opnar á næstunni nýjan veitingastað á Hvammstanga og hefur veitingastaðurinn fengið nafnið Sjávarborg. Veitingastaðurinn verður staðsettur á efri hæð Selaseturs Íslands. Norðanátt.is birti nýlega umfjöllun um hinn nýja veitingastað og hvernig unnið er nú hörðum höndum að því að breyta húsnæðinu í veitingastað.

Gauksmýri hefur jafnframt tekið við rekstri skólamötuneytis fyrir Grunnskóla Húnaþings vestra og er maturinn eldaður á veitingastaðnum á Hvammstanga og fluttur upp í skóla þar sem hann er framreiddur til nemenda og starfsfólks.

Sjávarborg áformar að opna í hádeginu um mánaðarmótin febrúar/mars næstkomandi og verður þar, til að byrja með, sami matseðill og er í skólamötuneytinu. Í hádeginu verður boðið uppá þrennskonar fyrirkomulag sem hægt er að velja á milli; 1) að kaupa staka máltíð, 2) að kaupa kort sem gildir fyrir tíu máltíðir og 3) að vera í áskrift alla virka daga og fá sendan reikning mánaðarlega.

Nánari upplýsingum um þetta verður komið á framfæri þegar ljóst er hvenær staðurinn verður tilbúinn til opnunar. Vonast er svo til að opnun veitingastaðarins á kvöldin og um helgar verði fyrir komandi páska.

„Nafnið Sjávarborg vísar aftur í tímann í söguna um húsið Sjávarborg eða Möllershús sem stóð á sjávarkambinum þar sem síðar var byggt frystihús Kaupfélags Vestur Húnvetninga. Húsið var flutt þrisvar og stendur nú við Spítalastíg. Það er talið vera elsta húsið á Hvammstanga,“ segir á vefnum.

Sveitasetrið Gauksmýri leitar nú til íbúa Húnaþings vestra um álit og ráð varðandi veitingastaðinn. Hægt er að koma ábendingum á framfæri á netfangið jalberts@gauksmyri.is eða í síma 869-7992 (Jóhann) og 845-0590 (Sigga). Einnig er hægt að koma ábendingum bréfleiðis.

  1. Átt þú í fórum þínum gamlar myndir frá höfninni á Hvammstanga eða sláturhúsinu/frystihúsinu sem þú værir til í að lána okkur til að taka eftirprentun? Meiningin er að gera sögunni skil í máli og myndum.
  2. Átt þú í fórum þínum gamla hluti sem tengjast sjósókn svo sem akkeri, skrúfu, stýri, net , netahringi, beitningabala(línubali), kúlur, baugjur o.s.frv. og gætir hugsað þér að láta okkur fá til skreytinga á staðnum?
  3. Hvað vilt þú sjá á matseðlinum?
  4. Hver á opnunartíminn að vera?
  5. Hvers konar viðburði vilt þú sjá á þessum nýja stað?
  6. Annað sem þú vilt koma á framfæri varðandi veitingastaðinn.

Nokkrar myndir frá framkvæmdum má skoða á Norðanátt.is.

Fleiri fréttir