Sjávarleður á lista yfir leiðandi nýsköpunarfyrirtæki á alþjóðamarkaði
Sjávarleður hf. á Sauðárkróki hefur verið valið á listann Sustainia100 yfir leiðandi nýsköpunarfyrirtæki á alþjóðamarkaði sem stunda sjálfbæra starfsemi. Listinn var gerður kunnur í Osló sl. mánudag en sérfræðingar hjá Sustainia rannsökuðu yfir 900 verkefni um allan heim.
„Fyrirtækin á Sustainia100 listanum veita öðrum fyrirtækjum, borgum og neytendum um gjörvallan heim innblástur. Sjálfbær nýsköpun hefur verið að kollvarpa mörkuðum og iðnaði síðustu ár og hafa þær breytingar gerst mjög hratt. Hætt er við að fyrirtæki verði á eftir sem ekki aðlaga sig þessu breytta landslagi, þar sem skilvirk og sjálfbær starfsemi er lykillinn að velgengni til lengri tíma,“ segir Laura Storm framkvæmdastjóri Sustainia í fréttatilkynningu.
Sustainia100 listinn veitir fjárfestum, viðskiptajöfrum, neytendum og öðrum í stefnumótunarvinnu nýjar lausnir innan síns geira í átt að sjálfbærri starfsemi. Listinn er gefinn út á hverju ári og býður upp á 100 nýsköpunarlausnir í 10 geirum frá 142 löndum. Geirarnir eru: Menntunar-, orku-, heilbrigðis-, bygginga-, matarframleiðslu-, tísku-, samgöngu- og upplýsingatæknigeirinn, auk lausna vegna endurvinnslu og fyrir byggðarlög (e. smart cities).
Sjávarleður er sagt vera fyrsta flokks nýsköpunarfyrirtæki í tískugeiranum á Sustainia100 listanum. Hér má sjá listann fyrir árið 2014 í heild sinni.