Sjúkraflutningamenn eru ekki allir ánægðir

Sjúkraflutningamenn á Blönduósi hafa ekki dregið uppsagnir sínar til baka og er einn þeirra hættur að því er fram kom í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag. Samkomulagið sem tókst á föstudag var sagt marka tímamót þar sem nú væru allir sjúkraflutningamenn á landinu komnir með kjarasamning. Þórður Pálsson, sjúkraflutningamaður á Blönduósi segir í samtali við RÚV að þetta sé ekki rétt þar sem einungis sé um samkomulag að ræða sem sjúkraflutningamenn séu ekki allir ánægðir með.  

„Í fyrsta lagi að þetta er ekki kjarasamningur og þess vegna fylgja ekki öll þau réttindi sem kjarasamningum fylgja. Síðan var ekki kosið um samninginn og engin hækkun á bakvakt á dagvinnutíma þannig að það er lítið greitt fyrir það. Í sjálfu sér erum við á sömu launum og við vorum á áður, það er bara reiknað öðruvísi út,“ sagði Þórður sem er í hópi þeirra sex sjúkraflutningamanna á Blönduósi sem sögðu upp störfum í apríl. Þórður sagði að óvíst væri hve margir þeirra drægju uppsagnir sínar til baka, einn sé hættur og annar muni hætta síðar í sumar. „Menn eru að melta þetta með sér svona, eða reikna þetta út hvað þeir ætla að gera, hvort þeir ætla að halda áfram eða hætta þessu bara,“ segir Þórður.

Fleiri fréttir