Skagafjörður heilsueflandi samfélag

Undirritun um samstarf Landlæknis og Svf. Skagafjarðar um Heilsueflandi samfélag fór fram á fræðsludegi skólanna í Skagafirði sem haldinn var í Miðgarði í gær. Mikill fögnuður ríkti meðal viðstaddra um gjörninginn. Mynd: PF.
Undirritun um samstarf Landlæknis og Svf. Skagafjarðar um Heilsueflandi samfélag fór fram á fræðsludegi skólanna í Skagafirði sem haldinn var í Miðgarði í gær. Mikill fögnuður ríkti meðal viðstaddra um gjörninginn. Mynd: PF.

Í gær skrifuðu Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri og Alma D. Möller landlæknir undir samning milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar og embætti Landlæknis um verkefnið Heilsueflandi samfélag. Meginmarkmið þess er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.

„Þetta felur m.a. í sér að öll stefnumótun framkvæmdir og þjónusta á að vera í anda þessara megin markmiða og taka mið af leiðarljósum verkefnisins og þetta tengist mjög heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Sigfús Ingi við undirritunina og lýsti um leið ósk sinni að öll þau sem starfa í þágu íbúa sveitarfélagsins tileinki sér markmið og starfshætti Heilsueflandi samfélags og leggi sitt af mörkum til að Skagafjörður gerist gildandi á landsvísu í þeim efnum með almenna lýðheilsu að leiðarljósi.

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri og Alma D. Möller landlæknir handsala samning um að Sveitarfélagið Skagafjörður verði Heilsueflandi samfélag. Mynd: PF.Af hverju Heilsueflandi samfélag?
Á heimasíðu Landlæknis segir að heilsa sé líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku (WHO, 1948). Lýðheilsa felur í sér markvissar aðgerðir hins opinbera og annarra sem miða að því að bæta heilsu, líðan og lífsgæði þjóða og þjóðfélagshópa (WHO, 1998).

Fólk lifir lengur á meðan hlutfall fæðinga minnkar sem felur í sér tækifæri en einnig ýmsar áskoranir fyrir samfélög. Stjórnvöld verða að velja hagkvæmar leiðir til að viðhalda og bæta heilsu og færni fólks á öllum æviskeiðum. Markvisst lýðheilsustarf, sem sem byggir á bestu þekkingu á hverjum tíma hefur fjölþætt gildi fyrir ríki, sveitarfélög, einstaklinga og aðra hagsmunaaðila. Ef vel tekst til við innleiðingu Heilsueflandi samfélags má vænta að andleg, líkamleg og félagsleg heilsa og vellíðan íbúa verði betri en annars, jöfnuður verði meiri sem og öryggi og lífsgæði almennt.

Heilsueflandi samfélag er heildræn nálgun sem Embætti landlæknis vinnur að í samstarfi og samráði við sveitarfélög, opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök o.fl.

Svo var fánanum flaggað í fyrsta skipti í Skagafirði af Þorvaldi Gröndal, frístundastjóra. Mynd: PF.

Sveitarfélög hafa sjálf frumkvæði að því að gerast Heilsueflandi samfélag. Skilyrðin fyrir þátttöku eru að bæjar- eða sveitarstjóri skrifi undir umsókn um þátttöku, skipaður sé þverfaglegur stýrihópur fyrir starfið sem tryggir aðkomu lykilhagsmunaaðila að því og sérstakur tengiliður er tilnefndur. Með undirskrift samnings um Heilsueflandi samfélag einsetja sveitarfélög sér að vinna markvisst lýðheilsustarf, í samræmi við markmið og leiðarljós Heilsueflandi samfélags með stuðningi frá Embætti landlæknis og öðrum sem að starfinu koma. Í markvissu lýðheilsustarfi er bilið á milli gagna, stefna og aðgerða brúað með því að nota lýðheilsuvísa, gátlista og önnur gögn til að meta stöðuna og forgangsraða í samræmi við þarfir hvers samfélags. Miðlægt vefkerfi, sem er í þróun, styður samfélög í að halda utanum starfið, meta framvindu þess og miðla áfram m. a. með sjálfkrafa skýrslum.

Innleiðing Heilsueflandi samfélags og skóla fellur vel að innleiðingu Heimsmarkmiðanna og öfugt. Það má glöggt sjá m.a. með því að skoða hvernig Þriðja Heimsmarkmiðið, sem kveður á um heilbrigt líf og vellíðan allra frá vöggu til grafar, er samofið hinum sextán markmiðunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir