Skagafjörður sækir um þátttöku í tilraunaverkefni Íbúðalánasjóðs
Á fundi byggðarráðs Skagafjarðar þann 20. september sl. var tekið fyrir bréf frá Íbúðalánasjóði þar sem fram kemur að sjóðurinn leiti eftir tveimur til fjórum sveitarfélögum til að taka þátt í tilraunaverkefni um uppbyggingu í húsnæðismálum á landsbyggðinni. Byggðarráð samþykkti að fela sveitarstjóra að sækja um að Sveitarfélagið Skagafjörður verði þátttakandi.
Markmið verkefnisins er að leita leiða til þess að bregðast við þeim mikla húsnæðisvanda sem ríkir víðsvegar á landsbyggðinni, m.a. vegna óvirks íbúða- og leigumarkaðar og skorts á viðunandi íbúðarhúsnæði.
Á heimasíðu Íbúðalánasjóðs kemur fram að verkefnið taki mið af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem og stefnumótandi byggðaáætlun sem samþykkt var á Alþingi þann 11. júní 2018. Í byggðaáætlun sé m.a. kveðið á um markmið um fjölgun íbúða á svæðum þar sem skortur á hentugu íbúðarhúsnæði hamlar uppbyggingu í sveitarfélaginu.
„Það er ekkert eiginlegt umsóknarform hjá þeim heldur er verið að leita eftir sveitarfélögum í verkefnið og ætlunin að það nái að fanga mismunandi áskoranir á ólíkum landsvæðum. Samkvæmt okkar samtölum við sjóðinn er allt þar undir, þ.e. skoðun á nýbyggingum, breytingum og aðlögun á eldra húsnæði o.s.frv.,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Svf. Skagafjarðar, aðspurður um afgreiðslu bréfsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.