Skagfirðingar og Húnvetningar á Austurvelli
Fólk allsstaðar að af landinu safnaðist saman á Austurvelli í gær til að afhenda heilbrigðisráðherra Guðbjarti Hannessyni undirskriftarlista þar sem fólk mótmælir þeim niðurskurði sem boðaðar hafa verið af hálfu ríkisstjórnarinnar.
Sunnlendingar höfðu skipulagt mótmælin vel og komu þeir vel mannaðir og æfðir með magnaðan leikþátt sem vakti mikla athygli.
Meðal þeirra sem mættu á völlinn voru fulltrúar heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi og Sauðárkróki og töluðu bæði Einar Óli Fossdal og Helga Sigurbjörnsdóttir og mótmæltu harðlega og voru þau með undirskriftir rúmlega helmings atkvæðabærra manna í Húnavatns og Skagafjarðasýslu.
Sjá mátti norðanfólk sem búsett er á höfuðborgarsvæðinu koma og sýna málinu stuðning sem sýnir að miklar tilfinningar hrærast í fólki.
Guðbjartur tók við undirskriftum u.þ.b. 20 þúsund Íslendinga og þakkaði fyrir sig og minnti fólk á að verið væri að endurreisa samfélagið og það væri sameiginlegt verkefni allra. Ekki eru þó allir sammála um að forgangsröðunin sé rétt.
Það mætti halda að veðurguðirnir hafi viljað vera með í fjörinu því litlu mátti muna að fulltrúar Skagfirðinga kæmust ekki á Austurvöllinn þar sem mikinn hvell gerði þegar bifreið þeirra rann úr Sauðárkróknum. Mikill blindbylur var á Þverárfjallsvegi svo ekki sást á milli augna eins og sagt var hér einu sinni. Var blindan svo mikil að á kafla varð maður að ganga á undan bílnum svo halda mætti förinni áfram. Við þetta tafðist hópurinn því ferðin yfir fjallveginn tók helmingi lengri tíma en á venjulegu ferðalagi. Frá Blönduósi var færið og skyggnið betra á leið suður.
Á leiðinni heim var ferðaveðrið ekki gott því skafrenningur og yfir 20 m/sek. var mest alla leiðina og ekki gott yfir Holtavörðuheiðina. Þverárfjallið var ófært og fór skagfirski hópurinn Vatnsskarðið en þar var engin fyrirstaða á veginum en alveg kolvitlaust veður og kafaldsbylur.
En heim komst hópurinn ánægður eftir góða ferð á Austurvöll og vonar að heilbrigðisráðherrann taki tillit til fólksins á landinu sem af miklum baráttuhug stendur vörð um heibrigðisstofnanir sínar.