Skagfirðingar styrkja þolendur átakanna í Úkraínu
Undanfarið hafa Skagfirðingar lagt sitt að mörkum í neyðarsöfnun Rauða krossins fyrir þolendur átakanna í Úkraínu. 6. apríl færðu fjórar duglegar stúlkur, þær Brynja María Baldvinsdóttir, Árelía Margrét Grétarsdóttir, Álfrún Anja Jónsdóttir og Júlía Marín Helgadóttir, Rauða krossinum 31 þúsund krónur. Þær höfðu búið til kort og selt í Skagfirðingabúð á Sauðárkróki.
28. apríl stóð hópur tónl-
istar-
manna
sem nefnir sig Úkraínuhópurinn fyrir söfnunartónleikum í Sauðárkrókskirkju með stuðningi Menningarfélagsins Gránu en hugmyndina átti Anna Szafraniec. Á tónleikunum mátti hlýða á tónlist af ýmsum toga, meðal annars tvö frumsamin lög. Tónleikarnir hófust með úkraínsku sönglagi og þeim lauk með úkraínska þjóðsöngnum. Augljóslega hafði hópurinn lagt mikinn metnað í að gera tónleikana sem besta og áttu tónleikagestir eftirminnilega kvöldstund í Sauðárkrókskirkju.
Til að styðja þetta frábæra framtak var Rauði krossinn í Skagafirði með markað sinn opinn sama dag en öll sala þessa dags rann í neyðarsöfnunina. Þá ákvað Kvenfélag Staðarhrepps einnig að styrkja átakið um 50.000 krónur. Samtals söfnuðust því 425.850 krónur. Rauði krossinn í Skagafirði vill skila kæru þakklæti til allra sem stóðu fyrir og studdu söfnunarátakið.
/Sólborg Una Pálsdóttir