Skagfirðingar vilja fullnægjandi fjarskiptasamband

Fjarskiptamastur á Tindastóli. MYND: RÓBERT DANÍEL
Fjarskiptamastur á Tindastóli. MYND: RÓBERT DANÍEL

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar og hreppsnefnd Akrahrepps lýsa yfir áhyggjum af lélegu fjarskiptasambandi víða um Skagafjörð sem dregur úr öryggi þeirra sem búa á svæðinu eða eiga leið um það. Í frétt á Skagafjörður.is segir að byggðarráð og hreppsnefnd hvetji Neyðarlínuna og ríkisvaldið til að tryggja fullnægjandi fjarskiptasamband með uppsetningu fleiri senda í samvinnu við staðkunnuga, auk þess sem Tetra-sambandið verði stórlega bætt til að auka öryggi íbúa og ferðamanna í landshlutanum.

Skagfirðingar hafa unnið að því á undanförnum árum, í samvinnu við stjórnvöld í gegnum verkefnið Ísland ljóstengt, að koma á ljósleiðaratengingu í dreifbýli utan markaðssvæða. Er þess nú skammt að bíða að flest heimili í dreifbýli í Skagafirði hafi aðgang að háhraða fjarskiptatengingu. 

Gsm og tetra-samband í Skagafirði er hins vegar víða stopult eða ekki til staðar. Á þetta nokkuð víða við, m.a. í inndölum og um hálendið þar sem m.a. er stundaður landbúnaður og ferðaþjónusta, auk þess sem svæðið laðar að sér marga gesti til útivistar. Enn er því óleyst það mikilvæga verkefni að tryggja fjarskiptasamband fyrir almenning til neyðar- og viðbragðsaðila gegnum 112.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar og hreppsnefnd Akrahrepps skora enn fremur á Neyðarlínuna og ríkisvaldið að tryggja fullnægjandi fjarskiptasamband á bæjum í Skagafirði áður en gamla koparkerfið (heimasíminn) verður að fullu lagt niður á næstu vikum. Annað sé með öllu ólíðandi.

Heimild: Skagafjörður.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir