Skagfirðingunum gekk vel á HM íslenska hestsins

Nú er Heimsmeistaramóti íslenska hestsins, sem fram fór í Oirschot í Hollandi, lokið. Þrír Skagfirðingar voru meðal keppenda, þeir Finnbogi Bjarnason, Þórarinn Eymundsson og Jóhann Skúlason og náðu þeir afbragðs árangri.
Finnbogi var á sínu fyrsta Heimsmeistaramóti og keppti í tölti í ungmennaflokki á Randalín frá Efri-Rauðalæk og lönduðu þau 4. sætinu. Þórarinn er margreyndur knapi á stórmótum og náðu þeir Narri frá Vestri-Leirárgörðum silfurverðlaunum í fimmgangi með 7,26 í einkunn, þremur kommum frá Frauke Schenzel og Gusti vom Kronshof sem sigruðu með 7,29. Þá þurfti Jóhann að sætta sig við annað sætið í tölti á Finnboga frá Minni-Reykjum (8,33). Þar var það Jakob Svavar Sigurðsson á Gloríu frá Skúfslæk sem hafði betur og sigraði með einkunnina 8,94.