Skagfirskir fiðlunemendur á æfingum með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands
Þær Guðfinna Olga Sveinsdóttir og Matthildur Kemp Guðnadóttir fiðlunemendur hjá Tónlistarskóla Skagafjarðar halda nú á nýjan leik á æfingar með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Spiluðu þær með Sinfóníunni á síðasta starfsári á nokkrum tónleikum og var þeim boðin þátttaka að nýju.
Að sögn Kristínar Höllu Bergsdóttur, kennara hjá strengjadeild Tónlistarskóla Skagafjarðar, hafa þær báðar æft frá unga aldri og hefur áhugi þeirra og vinnusemi skilað þessum mikla árangri að fá að taka þátt í tónleikum sem þessum.
Næstkomandi sunnudag verða tónleikar kl. 16 í Hofi og verður þá flutt verk eftir Mozart og Haydn. Fyrst verður fluttur Forleikur að óperunni Don Giovanni eftir Mozart, þvínæst konsert í fyrir 2 horn og hljómsveit eftir Haydn og að lokum sinfónía nr. 104 eftir Haydn. Daníel Bjarnason stjórnar hljómsveitinni að þessu sinni.
„Við getum verið stolt af þessum ungu fiðluleikurum sem munu vera Skagfirðingum til sóma,“ segir Kristín Halla um þær Guðfinnu og Matthildi í samtali við Feyki.