Skagstrendingar á Hornströndum
Á vef Skagastrandar er sagt frá vikulangri Hornstrandaferð Skagstrendinga sem lauk nú í vikunni. Sautján manns tóku þátt og þar af tvö börn. Hópurinn gekk á fjöll, um björg og á jökul og naut einstakrar veðurblíðu svo að segja allan tímann.
Ferðin hófst í Norðurfirði á Ströndum miðvikudaginn 21. júlí. Þaðan var siglt í glampandi sólskini og norðaustan andvara í Hornvík, verður sem hélt sér nokuð óbreytt alla ferðina.
Í Hornvík var komið rétt fyrir hádegi og því um fátt annað að ræða en að koma upp tjaldbúðum og halda síðan í göngu. Hornbjarg freistar allra og var því fyrst gengið út með víkinni og upp á Hnúkinn, fremsta hluta bjargsins. Síðan var gengið því sem næst með bjargbrún inn að tindunum Jörundi og Kálfatindu og aftur inn að tjaldbúðunum við Höfn.
Daginn eftir var gengið inn í Hvanndal við Hælavíkurbjarg. Þar er hinn frægi Langikambur, mjór berggangur sem gengur langt út í sjó rétt eins og bryggja.
Reykjarfjörður er stórkostlegur staður, ekki aðeins fallegur frá náttúrunnar hendi, heldur hefur þar lengi verið rekin ferðaþjónusta. Árið 1931 var byggð sundlaug í Reykjarfirði því eins og nafnið bendir til er jarðhiti í firðinum. Síðar var hún endurnýjuð og nú er þarna fyrirtaks aðstaða fyrir ferðamenn sem gönguglaðir Skagtrendingar nýttu sér óspart.
Í Reykjarfirði var dvalið í fjóra daga. Gengið var á Geirhólma, Þaralátursnes, farið á Drangajökul og gengið á Hljóðabungu og Hrolleifsborg.
Sólbrenndir og kátir komu ferðafélagarnir til baka í Norðurfjörð mánudaginn 26. júlí. Flestur hefðu getað hugsað sér að vera lengur á Hornströndum en hlökkuðu þó til að aka suður Strandasýslu enda landslaga óvíða fegurra og tilkomumeira.
Fleiri myndir úr ferðinni er hægt að sjá á Skagaströnd.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.