Skagstrendingur sem býr í Grindavík - Rebekka Laufey Ólafsdóttir og Jón Torfi Gunnlaugsson

Rebekka og Jón Trausti ásamt börnunum þeirra. Mynd aðsend.
Rebekka og Jón Trausti ásamt börnunum þeirra. Mynd aðsend.

Nú er komið að því að heyra í skagstrendingi sem býr í Grindavík og er það Rebekka Laufey Ólafsdóttir og unnustinn hennar Jón Torfi Gunnlaugsson sem Feykir hafði samband við. Rebekka og Jón eiga börnin: Tristan Leví Jónsson (12 ára), Jósef Inga Arason (11 ára), Alexander Hólm Jónsson (10 ára), Anton Inga Jónsson (9 ára) og Jökul Breka Jónsson (3 ára). En Rebekka flutti til Grindavíkur með syni sínum Jósef Inga fyrir sex árum þegar hún og Jón byrjuðu að búa saman. Jón Torfi átti fyrir strákana Tristan, Alexander og Anton en þau eignuðust svo saman Jökul Breka. Sumarið 2022 keyptu þau drauma einbýlishúsið sitt sem er staðsett í Staðarhrauni og er á rauða svæðinu í bænum. Er þetta svæðið sem sigdalurinn myndaðist og talið vera hættulegasta svæðið í bænum eins og staðan er núna og mjög mikil óvissa sem ríkir um það.

„Fyrir okkur er þetta sannkallað draumahús, þarna líður okkur öllum vel. Húsið er staðsett miðsvæðis í bænum, í göngufæri frá skóla og allri þeirri þjónustu sem við þurfum á að halda. Við erum með frábæra nágranna, allt eins og við viljum hafa það. Ég ræddi það oft við Jón Torfa að þarna vilji ég vera um ókomna tíð,“ segir Rebekka

Hvernig er staðan á ykkur á þessum óvenjulegu tímum? „Staðan á okkur í dag er þannig að ég er stödd á Skagaströnd hjá foreldrum mínum með Jósef, Alexander og Jökul. Jón Torfi er búinn að vera í Reykjanesbæ hjá frænku sinni sl. daga í von og óvon um að komast inn í bæinn til að sækja eitthvað af eigum okkar. Tristan og Anton eru hjá föður afa sínum í Reykholti. Þannig að við erum töluvert dreifð eins og er. Við stefnum á að Jón Torfi komi norður til okkar en mögulega verða Tristan og Anton eftir í Njarðvík hjá móður sinni. Margt er ennþá óljóst og erfitt að gera plan langt fram í tímann en engu að síður er mikilvægt að koma á stöðuleika fyrir börnin.“

Hvernig er líðan? ,,Það er erfitt að koma því í orð hvernig okkur er búið að líða. Þetta er gríðarlega mikið áfall. Við erum að horfa fram á það að mögulega missa allar okkar veraldlegu eignir. Við erum búin að búa við jarðskjálfta og óvissu í fjögur ár. Það hafa komið þrjú eldgos í nágrenni við okkur sl. ár. Þessi yfirvofandi ógn hefur haft mikil áhrif á okkur og börnin okkar. En aðdragandinn að þessu ástandi núna hefur verið svo miklu verri, meira af kröftugum skjálftahrinum með upptökin 2-5km frá bænum, þannig skjálftarnir voru mjög kröftugir og harðir. Komu mikið á nóttunni þannig við vorum ítrekað svefnlaus og taugakerfið út þanið. Maður var hræddur þar sem upptökin voru svo nálægt bænum, hræddur hvar kvikan kæmi upp ef færi að gjósa, hræddur hvort maður næði að rýma, hræddur hvort maður næði til barnanna sinna sem voru dreifð um samfélagið yfir daginn. Við lifðum í stanslausri hræðslu þessar tvær vikur sem liðu frá upphafi þessarar hrinu og þangað til bærinn var rýmdur. Líðanin í dag er í samræmi við þetta, fyrir utan alla óvissuna sem hangir yfir okkur núna er uppsöfnuð streita sem við þurfum að vinna úr með tíð og tíma, því það mun taka tíma.“

En hvernig gekk að finna samastað eftir að rýming hófst, voru þið farin áður en bærinn var rýmdur? ,,Við vorum búin að gera plan hvert við færum ef þyrfti að rýma, við færum til Skagastrandar. Aldrei bjóst maður samt við því að þurfa að nýta það. Á þriðjudeginum fyrir rýmingu fóru Jósef, Alexander og Jökull til Skagastrandar. Við vorum á leið á árshátíð hjá vinnunni minni á laugardaginn þannig við nýttum tækifærið að þeir færu norður, hvíla þá á skjálftunum og létta aðeins á heimilinu á þessum óvissu tímum. Á fimmtudeginum fóru Tristan og Anton til Njarðvíkur. Á þeim tímapunkti duttu jarðskjálftarnir niður og við gátum sofið rótt aðfaranótt föstudags. Á föstudeginum byrja skjálftarnir aftur og við ákveðum að fara til Reykjavíkur og gista þar alla helgina, enda á leið á árshátíð í bænum á laugardagskvöldið. Þannig við förum úr bænum fyrir rýminguna, nánast bara með spariföt með okkur. Við erum svo stödd á veitingastað í Reykjavík þegar ég frétti að það sé verið að rýma vinnustaðinn minn sem var mikið áfall fyrir mig, þá áttaði ég mig á alvarleika stöðunnar. Ég er hjúkrunarfræðingur og aðstoðardeildarstjóri á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð sem nánast rifnaði í tvennt. Þetta kvöld er í hálfgerðri móðu, versta sviðsmyndin sem maður hafði sett upp í hausnum á sér var virkilega að gerast.“

Hafið þið fengið að fara aftur heim til að sækja eitthvert dót? ,,Jón Torfi náði í þriðju tilraun að komast inn á svæðið og ná í eitthvað af fötum og myndum. Stressið að komast inn var mikið og í hvert sinn sem hann komst ekki inn upplifðum við mikið áfall, fannst það fjarlægjast að við næðum einhverju af heimilinu okkar. Hann þurfti að fara með fylgd þar sem við búum á hættulegasta svæðinu. Fékk fimm mínútur inni en björgunarsveitamaðurinn sem fór inn með honum hjálpaði honum, tók t.d. fjölskyldumyndir af veggjum o.þ.h. sem við erum mjög þakklát fyrir.“

Var mikið tjón heima hjá ykkur áður en þið yfirgáfuð heimilið? Húsið okkar viðist vera nokkuð heilt að sjá, ekki mikið af sjáanlegum sprungu eða skemmdum. Hins vegar veltir maður fyrir sér undirstöðunni undir húsinu þar sem sigdalurinn er undir því, veit ekki nákvæmlega um hversu marga cm jarðvegurinn hefur sigið þarna undir en mér finnst ansi líklegt að það hafi áhrif á húsið. Það á eftir að koma í ljós. Óvissan er svo mikil sem gerir allt svo miklu erfiðara. Það er sorglegt að þurfa að hugsa til þess að einfaldara væri ef húsið hefði farið undir hraun, þá væri hægt að byrja á núlli og vinna sig upp en í þessari óvissu er ekkert hægt að gera. Staðreyndin er líka sú að ef ekki gýs þá sitjum við uppi með verðlausa eign og getum við hugsað okkur að búa áfram þarna eftir allt sem á undan er gengið? Erfitt að sjá það fyrir sér.“

Hvernig er staðan næstu vikur hvað varðar skóla og vinnu. Vitið þið eitthvað, er hægt að gera einhver plön í svona mikilli óvissu? Næstu vikurnar munu líklega fara í það að græða sálina sem er ansi löskuð, hjá okkur öllum. Skapa stöðuleika fyrir börnin og hjálpa þeim að aðlagast nýjum veruleika. Jökull þriggja ára spyr oft hvenær við förum heim og hvenær hann kemst á sinn leikskóla. Hann er byrjaður í aðlögun á leikskóla hér á Skagaströnd og Jósef og Alexander eru byrjaðir í grunnskólanum hér líka. Það var einstaklega vel tekið á móti þeim öllum og eru þeir sáttir með sig og glaðir. Við erum afskaplega þakklát fyrir litla samfélagið sem ég ólst upp í hér á Skagaströnd, finn mikið fyrir samkenndinni og allir tilbúnir að aðstoða. Tristan fer líklega í Njarðvíkurskóla og fer sú vinna að hefjast, óljóst er hvort Anton komi til okkar eða verði í Njarðvík, þetta eru hlutir sem verið er að vinna í þessa dagana.
Varðandi vinnuna mína þá sem er hjúkrunarheimilið HSS, heilbrigðisstofnun Suðurnesja, þá get ég unnið þar áfram en þar sem við þurfum að flýja út á land get ég það ekki. Mig langar að halda þeirri vinnu og stefni á að fara þangað þegar við fáum húsnæði í Reykjanesbæ. Við erum stór fjölskylda og því ekki auðvelt að finna viðeigandi húsnæði fyrir okkur. Óljóst er hvernig fer með launin, hversu lengi ég fæ laun og hvað tekur þá við eftir það. Þessi óvissuþáttur tekur á því það lifir enginn á loftinu," segir Rebekka að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir