Skáli frá Víkingaöld
Undangengnar tvær vikur hefur staðið yfir fornleifauppgröftur á vegum Fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga á bænum Hamri í Hegranesi. Ástæða þess að ráðist var í rannsóknirnar eru þær að ábúendur hyggjast byggja við íbúðarhúsið sem stendur á gamla bæjarstæðinu. Það var því strax ljóst kanna þyrfti fornleifar á svæðinu áður en grunnur yrði tekinn.
Á svæðinu norðan við íbúðarhúsið þar sem viðbyggingin á að rísa stóð fjós og hlaða fram á 20. öld, en þar áður eldri torfbær, gangabær sem rifinn var um 1930. Uppdráttur er til af þeim bæ gerður af Hróbjarti Jónassyni og taldi hann bæinn að grunni til frá því um aldamótin 1800.
Við upphaf rannsókna í vor var hreinsað uppúr skurði sem lá þvert yfir svæðið og tengdist áðurnefndri fjósbyggingu. Í skurðinum mátti sjá umtalsverðar byggingaleifar sem virtust flestar tilheyra gamla gangabænum, en auk þeirra sáust undir auðþekktu hvítu gjóskulagi frá Heklu sem féll árið 1104, bæði torf- og kolaleifar sem vitnuðu forna byggð. Þessar eldri mannvistarleifar voru hins vegar sundurgrafnar af yngri byggingum, frárennslis- og lagnaskurðum og því var talið ólíklegt að heilleg mynd fengist af þeim.
Það kom rannsakendum því verulega á óvart á síðustu dögum rannsóknarinnar, þegar búið var að skrá og mæla inn a.m.k. tvær kynslóðir gangabæja á blettinum, að í ljós komu lítið röskuð gólflög og fornt eldstæði. Þegar grafið var útfrá gólflögunum sáust rótuð torflög sitt hvoru megin og örlitlar leifar af undirstöðum veggja –og smátt og smátt fór skáli að taka á sig mynd.
Skálinn hefur verið 4m breiður um miðbikið og a.m.k. 9m langur, en vegna rasks er það ekki að fullu ljóst. Í miðju gólfi var um 1m langt eldstæði eða langeldur og ummerki um bekki eða set með langhliðum. Í torfi skálans mátti greina gjósku sem talið er að sé úr gosi frá Vatnajökli frá því um 1000. Eftir er að senda sýni úr gjóskunni til frekari greiningar, en flest bendir til að skálinn sé frá 11. öld.
Ummerki um eldsmíði voru í öðrum enda skálans, gjall og sindur í gólflögum, en gólfin að öðru leyti lík því sem við er að búast í mannabústað frá þessum tíma. Nánari úrvinnsla og greining sýna á vafalaust eftir að varpa betra ljósi á hvað þar fór fram og hvað íbúar skálans aðhöfðust.
/Fréttatilkynning